Sýrland: Sáttasemjari biður almenning um stuðning

0
432
misturasyria

misturasyria

29.janúar 2016. Sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandsdeilunni hefur sent sýrlensku þjóðinni ávarp þar sem hann hvetur fólk til að beita deilendur þrýstingi til að semja um frið.

„Ég beini máli mínu til hvers einasta Sýrlendings, karla, kvenna og barna, hvort heldur sem þeir eru í Sýrlandi eða utan, í flóttamannabúðum eða hvar sem er,“ sagði erindrekinn Staffan de Mistura í ávarpi sínu á myndbandi.

„Við treystum á að þið látið rödd ykkar heyrast, að þið segið khalas, það er komið nóg. Þið verðið að segja öllum sem sækja friðarráðstefnuna í Genf að það séu bundnar vonir við þá um að binda enda á stríðið og til þess þarf málamiðlanir.“

Sameinuðu þjóðirnar hafa boðað til friðarviðræðna í Genf sem eiga að hefjast í dag og er búist við að þær standi í hálft ár. Stórir hópar uppreisnarmanna hafa hins vegar sett skilyrði fyrir þátttöku og eru enn, að minnsta kosti, ekki komnir að samningaborðinu í Genf.

De Mistura segist ekki draga dul á að torsótt verði að semja um frið.

„Þið hafið upplifað nógu margar ráðstefnur, tvær hafa þegar verið haldnar, en þessi má ekki fara út um þúfur. Við höfum hlustað á ykkur, við höfum heyrt ykkur endurtaka að sýrlenska þjóðin, þið konur, karlar og börn Sýrlands: Nóg, „khalas, kefaya.“ Það er nóg komið af drápum, morðum, pyntingum, fangelsum.“

„Við höfum heyrt þetta allt saman og nú þurfum við á því að halda að þið látið rödd ykkar heyrast og segið þeim sem sækja ráðstefnuna að hún sé tækifæri sem ekki megi ganga úr greipum,“ sagði de Mistura.

„Við hjá Sameinuðu þjóðunum munum ekki bregðast ykkur. Við munum aldrei snúa bakinu við sýrlensku þjóðinni, og við viljum að ykkur skiljist að nú sé rétti tíminn og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur,“ sagði erindrekinn í ávarpi til Sýrlendinga.