Sýrland: Svíþjóð í sérflokki

0
496

Swedens open arms

23.febrúar 2014. Svíar skara fram úr í Evrópu þegar móttaka flóttamanna frá Sýrlandi er annars vegar.

Svíþjóð er eina ríkið sem hefur tilkynnt að sýrlenskir flóttamenn fái dvalarleyfi til frambúðar og þar að auki hefur ríkið veitt flestum landvist. Þýskaland er ekki langt á eftir en er miklu fjölmennara ríki. Þótt mesta flóttamannavandamál í heiminum síðan í Síðari heimsstyrjöldinni sé á næsta nágrenni, hefur ekkert annað Evrópusambandsríki siglt í kjölfarið.
Alls sóttu rúmlega 16 þúsund Sýrlendingar um dvalarleyfi í Svíþjóð á síðasta ári.

Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) hefur lagt til að ríki taki á móti allt að 30 þúsund sýrlenskum flóttamönnum fyrir lok 2014 og leggi áherslu á þá sem um sárast eiga að binda. Hvatt er til þess að sýrlenskum flóttamönnum sé boðin landvist umfram flóttamannakvóta hvers lands fyrir sig. 

UNHCR hefur nýlega tekið saman lista yfir um eitt þúsund sýrlenskra flóttamanna sem lagt er til að fái landvist til fambúðar og sent til ýmissa ríkja, þar á meðal Norðurlanda. .

Að sögn Amnesty International hafa aðildarríki Evrópusambandsins boðið um 12 þúsund flóttamönnum sem eiga um sárt að binda hæli en það er aðeins 0.5% þeirra 2.3 milljóna sem flúið hafa Sýrland.
.
Antonio Guterres, forstjóri Flóttamannastofnunarinnar segir í viðtali við the Guardian: “Þegar nágrannaríki eru beðin um að halda landamærum opnum, skýtur skökku við hversu mörgum Sýrlendingum er snúið aftur við landamæri margra Evrópuríkja. Þetta gerist þótt fjöldi þeirra sé hlutfallslega lítill – Tyrkland hefur til dæmis tekið á móti tíu sinnum fleiri flóttamönnum en öll önnur Evrópuríki samtals.”

Finnar lýstu yfir í desember 2013 að Finnland muni hýsa 500 sýrlenska flóttamenn árið 2014. Árlegur “kvóti” Finnlands er vanalega 75 en verður hækkaður í 1050, og þar af verða Sýrlendingar 500, segir Kaisa Väkiparta, hjá Finnska flóttamannaráðinu. Þetta er afar lítið samanborið við Svíþjóð, en þó verður að gera greinarmun á beinum umsóknum um hæli og flóttamannakvóta. Svíar hafa samþykkt 23 þúsund beiðnir um hæli en kvóti þeirra er þó aðeins 400. 

Til þess að geta sótt um hæli í Finnlandi þarf að yfirstíga marga þröskulda. Fyrst þurfa flóttamennirnir að komast til Finnlands en engar vegabréfsáritanir standa Sýrlendingum til boða. Eina leiðin til Finnlands er í raun að komast þangað ólöglega um Rússland.
.
Noregur fjallar nú um að auka kvóta um eitt þúsund til að mæta flóttamannastraumi frá Sýrlandi en það bætist við 1.200 manna kvóta landsins hjá Flóttamannahjálpinni.
Danmörk sker sig úr í hópi þessara fjögurra ríkja. 2875 Sýrlendingar hafa fengið hæli og í ársbyrjun 2014 samþykktu Danir að hýsa 140 flóttamenn af kvóta UNHCR.

 Málefni sýrlenskra flóttamanna voru til umræðu á Alþingi í október síðastliðnum en þá hvatti Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins  til þess að stjórnvöld tækju á móti flóttamönnum frá Sýrlandi og spurði hvort utanríkisráðuneytið hefði mótað sér stefnu í málefnum þeirra. Flokksbróðir hans Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra tók vinsamlega í hugmynd Karls og sagði: : „Það sem við munum gera er að setjast að sjálfsögðu yfir málið og kanna hvað við getum gert.“ 

Ísland hefur þó ekki samþykkt að auka flóttamannakvóta sína til þess að hýsa sýrlenska flóttamenn og samkvæmt upplýsingum frá Velferðarráðuneytinu hefur þegar verið ákveðið að taka á móti alls 13 flóttamönnum 2013-2014 og er þar ekki sérstaklega gert ráð fyrir Sýrlendingum. Nokkrir sýrlenskir einstaklingar hafa undanfarin ár fengið hæli sem pólitískir flóttamenn eða landvist vegna sameiningar fjölskyldu. 

Norðurlöndin, að Íslandi undanskildu, tilkynntu um verulegan fjárstuðning við sýrlenska flóttamenn á ráðstefnu fyrr á þessu ári.

 (Fyrst birt í norræna fréttabréfi UNRIC, 19.febrúar 2014).