Sýrland: „Sádi Arabía og Íran lyklar að lausn“

0
439
Staffan de Mistura UNRIC Brussels 1011

Staffan de Mistura UNRIC Brussels 1011

Brussel 8.september 2015. Staffan de Mistura, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandsstríðinu segir að viðræður á milli Sádi Araba og Írana, séu lykill að skjótri lausn á átökunum í Sýrlandi.

De Mistura sagði á blaðamannafundi hjá UNRIC, Upplýsingaskrifstofu SÞ í Brussel, að hugsanlega gæti ráðstefna ríkja í þessum heimshluta á borð við Helsinki ráðstefnuna á áttunda áratugnum, leitt til árangurs.

„ Við skulum tala tæpitungulaust. Ef Sádi Arabía og íran myndu loks talast við og þá meina ég á svipaðan hátt og í Helsinki…þá myndu átökin halda áfram í einn mánuð – ekki eitt ár eða tíu ár. Því ef skrúfað er fyrir súrefnið hætta átökin.”

De Mistura benti á að Sádi Arabía og Íran hefðu “veruleg áhrif” í Líbanon, Jemen og Írak auk Sýrlands. Viðræður á milli ríkjanna gætu átt þátt í að binda enda á átökin, að því gefnu að þau sætu ekki ein við smaningaborðið og ættu í „raunverulegum viðræðum.”

Staffan 2„Ég hef starfað í 43 ár hjá Sameinuðu þjóðunumi við lausn 19 átaka. Mín reynsla er að fólk sest niður til að semja þegar ekki er lengur stuðningur við raunveruleg átök,” sagði De Mistura. „Ef ekkert er súrefnið, þá sloknar eldurinn.”

De Mistura, varaði við því að flóttamannavandinn ætti aðeins eftir að aukast.

„Lítum á tölurnar. Ég var einmitt að athuga hvaða afleiðingar það hefði ef ein milljón til viðbótar bættist við. Það gæti gerst ef fólk af Sunní-kvísl Íslams í Latakía hugsar sér til hreyfings. Og Lakatia er á ströndinni þannig að hægt er að sigla þaðan.”

Erindrekinn minnti á hina áhrifamiklu ljósmynd af Aylan Kurdi, þriggja ára gamla drengnum sem fannst drukknaður á strönd Tyrklands. “Og ég held að Aylan hafi viljað segja okkur að það er enginn tími lengur fyrir langtímaráðstefnur og umræður, núna verðum við að horfast í augu við þá sem segja okkur:„við höfum enga von lengur, þolinmæði okkar er á þrotum.”

Hann fagnaði viðræðum um Sýrland á milli Bandaríkjanna og Rússlands, „sem er góðs viti, en þeim hefur ekki tekist að komas að raunhæfri niðurstöðu en aðalatriðið sem er hver verður framtíðar stjórnarform Sýrlands.”

Hann bætti við: „En ég skal verða fyrstur til að segja ykkur að boðskapur Aylans til mín er að við höfum engan tíma. Það er enginn tími fyrir langdregna pólitíska ferla, það er þörf á að gefa sýrlensku þjóðinni raunhæfa von.”

Um hlut Evrópu sagði hann að hún ætti ekki beina aðild að deilunni, en gæti lagt sitt af mörkum með því að „koma sér saman um hvernig bæri að taka á móti flóttamönnum með reisn.”

Þá hefði einungis verið staðið við þriðjung loforða um fjárstuðning við stofnanir Sameinuðu þjóðanna til að annast milljónir flóttamanna í Jórdaníu, Tyrklandi og Líbanon.

Ef þessari fjárþörf er mætt, þá er að minnsta kosti hægt að stuðla að því að fólkið í flóttamannabúðunum sannfærist um að ástandið verði ekki mkið verra nú en á síðasta ári. Ef fólk hefur enga von, þá er eins víst að það leggi land undir fót.”

De Mistura, sem er af ítölsku og sænsku bergi brotinn, var skipaður sérstakur sendimaður Sameinuðu þjóðanna í Sýrlandi í júlí 2014 en hefur meðal annars gegnt svipuðu starfi í Írak (2007-2009) og Afganistan (2010-2011) en áður hefur hann starfað fyrir samtökin til dæmis í Bosníu, Sómalíu og Líbanon.

Myndir: UNRIC/Michael Durickas og Annika Bohnenblust