Það þarf að afleggja vetóið

0
454
Ossur

Ossur

24.október 2015. Össur Skarphéðinsson, var utanríkisráðherra 2009-2013 og situr nú í utanríkismálanefnd fyrir hönd Samfylkingarinnar.

Hann var spurður hvort Sameinuðu þjóðirnar hefðu staðið undir þeim væntingum sem til þeirra hafa verið gerðar. 

Nei, væntingarnar voru og eru miklu meiri. SÞ hafa vissulega staðið sig vel á mörgum sviðum. Atbeini SÞ leiddi til þess að nokkur ríki, m.a. S-Afríka og Kasakstan, raunar nokkur fleiri, hættu við að kjarnorkuvopnavæðast, og það var þeirra verk að lögum var komið yfir bófa einsog Slobodan Milosevis að ógleymdum Charles Taylor leiðtoga Líberíu.

Eitt afrek sem oft gleymist er svo heimsminjaskráin sem hefur orðið miklu öflugri en menn væntu, og slegið verndarhjúp um mikilsverða parta af arfleifð mannkyns, einsog Þingvelli, Galapagos og líklega ríflega þúsund aðra. Barátta þeirra gegn hungri og sjúkdómum er kanski “the unsung success” samtakanna því ég a.m.k. tel SÞ eiga umtalsverðan þátt í að barnadauði er miklu minni, og að menn deyja ekki lengur í milljónatugum úr hungursneyð einsog á síðustu öld. Hver hafði sosum trú á að árþúsundamarkmiðin myndu ganga upp?En þegar árangurinn er skoðaður er hann þó makalaust góður.

SÞ hafa líka heilt yfir staðið sig ágætlega, jafnvel vel, í friðargæslu og ályktanir þeirra hafa stundum stöðvað heiftarleg átök. Þær eiga sinn mikla þátt í að á fyrsta áratug aldarinnar dóu færri í stríðum en á nokkrum áratug síðustu aldar. En þjóðernishreinsanirnar í Rúanda og Srebrenica eru kolsvartir blettir, og sama gildir um framferði friðargæsluliða þeirra t.d. í Kongó. Í bláupphafinu vonuðust allir til að SÞ yrðu miklu öflugri í að koma á friði í heiminum en raunin varð. Sú tilfinning er enn til staðar.

Umbóta er þörf, hverra?

Öryggisráðið er versti veikleikinn, og kolfellur á flestum alvöruprófum. Það þarf að afleggja vetóið í Öryggisráðinu án þess að breyta alþjóðlegu gildi ákvarðana þess, stækka það, fækka þeim þjóðum sem eiga þar föst sæti með það fyrir augum að afleggja það úrelta skipulag e-n tíma í framtíðinni. Um leið þarf að veita miklu meira fjármagni til samtakanna og verkefna þeirra samhliða því sem skipulag þeirra yrði einfaldað, og gert skilvirkara.

Hvað telur þú það mikilvægasta sem Ísland hefur haft fram að færa á vettvangi Sameinuðu þjóðanna? Og hvað hefur verið Íslandi mikilvægast sem Sameinuðu þjóðirnar hafa haft fram að færa?

Ég held að það sé tvennt. Annars vegar áherslan á mannréttindi þar sem Ísland, einkum á seinni árum, hefur á köflum sýnt aðdáunarverða prinsippfestu. Hitt er samtvinnað hinu fyrra, og það er áherslan á réttindi kvenna. Ég held að fordæmi, afstöður og tillögur Íslands á vettvangi SÞ hafi skipt máli. Við stóðum okkur líka rosalega vel við að styðja við stofnun UN Women, og greiddum á fyrstu árum þess langt framyfir það sem okkur bar. Það skipti töluverðu máli.

Að lokum: Telur þú koma til greina að Ísland sækist eftir frekari vegtyllum hjá Sameinuðu þjóðunum, svo sem aðild að Mannréttindaráðinu eða jafnvel nýtt framboð til Öryggisráðsins?

Ekki að svo stöddu. Norðurlöndin eru almennt ekki í sérstöku stuði í kosningum á vettvangi SÞ þessi árin. Vitaskuld kemur að því að lítil þjóð með mannréttindafestu verður í Mannréttindaráðinu, sem var mikið heillaspor á ferli SÞ. Framboðið til Öryggisráðsins var alltaf á röngu spori, og ég er lítill áhugamaður um að endurtaka það.