Taka ber réttindi barna alvarlega

0
787
Mynd sýnir Maud de Boer-Buquicchio hitti oddvita og baráttufólk í Gambíu.
Maud de Boer-Buquicchio sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna hittir samfélagsleiðtoga og baráttufólk fyrir réttindum barna í heimsókn til Gambíu í október 2019. Mynd: UN Special Procedures/Jarra Soma Child Protection Community.

Norræna fréttabréf UNRIC – desember 2019. Það er ekki lítil ábyrgð sem Maud de Boer-Buquicchio hefur tekist á hendur í starfi sínu. Hún er sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna um mansal og kynferðislega mistnotkun barna.

Frá því hún hóf störf fyrir sex árum hefur hún lagt fram fjölmargar tillögur um úrbætur. Hún hefur einng tekið saman skýrslur til ríkisstjórna og Mannréttindaráðs samtakanna. En það er langt frá því að hún telji að nóg sé að gert. Hún telur að meiri árangri sé hægt að ná með auknum framlögum.

Svokölluð sérstök verkferli (Special Procedures) Mannréttindaráðsins fela í sér að skipaðir eru mannréttindasérfræðingar ýmist til að fjalla um sérstök málefni á heimsvísu eða tiltekin ríki.

Þótt kerfið hafi starfað í meir en hálfa öld eða frá 1967, þá var fyrsti sérstaki erindrekinn á þessu sviði skipaður 1990. Hlutverk hans er að fjalla allt sem viðkemur því að börn séu seld mansali, þvinguð í vændi eða notuð í barnaklám. Vart þarf að taka fram að í störfum sínum sem óháðir sérfræðingar, ber sérstöku erindrekunum að sýna fyllsta hlutleysi í starfi sínu.

„Við höfum töluvert málfrelsi því við erum óháðir sérfræðingar. En á sama tíma berum við ábyrgð. Þar að auki förum við eftir siðareglum. Við getum ekki farið út fyrir umboð okkar eða gert hvaðeina sem kann að vera í andstöðu við skyldur okkar,” segir Maud de Boer-Buquicchio í viðtali við Norræna fréttabréf UNRIC.

Í þágu réttinda barna

Alla starfsævi sína hefur Maud de Boer-Buquicchio hefur helgað sig mannréttindum og þá sérstaklega réttindum barna. Hún gekk til iðs við Evrópuráðið 1969. Þar sinnti hún ýmsum verkefnum innan mannréttindakerfisins sem komið var á fót í tengslum við Mannréttindasáttmála Evrópu. Frá 2002 til 2012 var hún vara-framkvæmdastjóri Evrópuráðsins fyrst kvenna.

Hún hleypti af stokkunum áæltun Evrópuráðsins „Evrópa með og í þágu barna”. Þar var kveðið á um heildræna nálgun við upprætingu hvers kyns ofbeldis gegn börnum og virðingu fyrir réttindum þeirra.

2014 var Maud de Boer-Buquicchio skipuð í embætti sérstakts erindreka um mansal og kynferðislega misnotkun barna og endurskipuð 2017.

„Ég hef unnið drjúgan hluta ferilsins við að efla réttindi barna og hindra kynferðislega misnotkun þeirra. Það var því rökrétt að sækja um. Mér fannst það fela í sér tækifæri til að starfa á heimsvísu við það sem ég hafði haft fram að færa í Evrópu og nota Barnasáttamálann sem vegvísi minn.“

Að virkja börn

Í starfi sínu leitast Maud de Boer-Buquicchio við að greina rætur vandans og uppgötva ný mynstur í sölu og kynferðislegri misnotkun barna. Hun sendir frá sér tillögur til úrbóta og birtir þematískar skýrslur. Þá leitast hún við að glæða vitund um málefnin og heimsækir ríki í boði ríkisstjórna. Markmiðið er að meta ástandið og gefa ráð um úrbætur um þau mál sem rúmast innan umboðs hennar.

„Heimsóknir af þessu tagi eru bæði mikilvægar og vandmeðfarnar. Ég hitti að máli alla sem hlut eiga að máli, þar á með fulltrúa ríkisstjórna, löggæslu, dómsyfirvalda, unga þingmenn og konur og það sem mikilvægast er: börnin.“

Maud de Boer-Buquicchio hefur ákveðna, sterka en hlýlega rödd. Það er auðvelt að sjá fyrir sér að hún sé jafnvíg á heimsóknir á skrifstofur embættismanna og herbergi full af ungum börnum.

„Ég reyni að virkja börnin eins mikið og hægt. Ég hlusta á þau til að heyra hvað þeim finnist að gera þurfi til að takast á við þessi mál. Fyrir utan að hitta börn og unga aktívista, legg ég alltaf áherslu á að hitta þá sem upplifað hafa kynferðislegt ofbeldi. Ég hlusta eftir skoðunum þeirra og þörfum.“

Tölvutæknin og internetið

 Eitt af þeim atriðum sem sérstaki erindrekinn hefur auga á er hvernig tölvutækni er beitt í þágu mansals barna og kynferðislegrar misnotkunar. Fyrirrennari hennar hóf að takast á við þá hættur sem internetið hafði skapað á tíunda áratugnum. Síðan hefur þetta verið mikilvægur liður í starfinu.

„Þegar barnaklám er birt á netinu, er alltaf um að ræða annars vegar barn sem er fórnarlamb og hins vegar geranda. Það er mikilvægt að ræða ábyrgð þeirra sem hýsa efni á netinu. Hvernig þeir geta orðið verndarar barna í stað þess að greiða fyrir dreifingu ýmist vitandi vits eða af vanþekkingu,“ útskýrir sérstaki erindrekinn. Fyrir utan notkun internetsins er ofarlega á blaði hjá embætti erindrekans að vinna að málum berskjaldaðra barna farandfólks.

Framfarir og áskoranir

Starf erindrekans leiðir oft til að skýrslur eru teknar saman og lagðar fram tillögur til úrbóta. Það er ánægjuefni þegar farið er eftir ráðgjöfinni. Nýlega heimsótti Maud de Boer-Buquicchio Malasíu. Þar lagði hún til að stofnað yrði embætti umsjónarmanns réttinda barna innan Mannréttindanefndar og var slíkt embætti stofnað í kjölfarið.

En jafnvel þótt árangur hafi orðið telur Maud de Boer-Buquicchio að almennt þurfi að fylgja málum betur eftir.

„Það er miður að ekki sé til nein kerfisbundin eftirfylgni til að reka á eftir því að ráðleggingum okkar sé fylgt og úrræði okkar eftir að heimsóknum lýkur eru takmörkuð. Það er erfitt að mæla bein áhrif starfsins og ákvarða að hvaða leyti aðrir hlutir koma við sögu.  En á sama tíma er mikilvægast að réttindi barna séu tekin alvarlega og það skiptir minnstu hver fær heiðurinn af framförum, svo lengi sem allir stefna að sama marki.”

Launalaust

Sérstakir erindrekar starfa launalaust og rekstarfé er af skornum skammti. Maud de Boer-Buquicchio segir að fjárskortur sé alvarlegasti dragbítur á árangur. Þörf sé á aukinni rannsóknargetu og auknum krafti í baráttu fyrir úrbótum.

„Umboð þessara sérstöku verkferla er afbragðs leið til þess að vekja athygli ríkisstjórna og veita óháða ráðgjöf um hvað ber að gera til þess að berjast gegn þessum vágesti sem sala og kynferðisleg misnotkun barna er og breyta heiminum til batnaðar í þágu barna og tryggja að þau njóti mannréttinda. En ég held að ef Mannréttindaráðið vilji tryggja árangur þá verði að útvega verkferlunum nauðsynleg fjárhagsleg úrræði,” segir Maud de Boer-Buquicchio að lokum.