Þegar Ísland neitaði að lýsa yfir stríði

0
528
Mogginn

Mogginn

28.október 2015. Ísland var ekki á meðal stofnenda Sameinuðu þjóðanna vegna þess Ísland neitaði ganga að því skilyrði að lýsa yfir stríði á hendur möndulveldunum.

UN70 Logo Icelandic horizontal outlinedEn að styrjöldinni lokinni var þessi hindrun ekki lengur fyrir hendi og Allsherjarþingið samþykkti umsókn Íslands um aðild 9. nóvember 1946. Ísland undirritaði síðan yfirlýsingu um að ríkið samþykkti sáttmála Sameinuðu þjóðanna hinn 19. nóvember sama ár. Sama dag gengu Svíþjóð og Afganistan í Sameinuðu þjóðirnar og voru þau ásamt Íslandi fyrst á eftir stofnaðildarríkjunum til að fá aðild að samtökunum.

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna var undirritaður 26. júní 1945 í San Francisco, í lok ráðstefnu sem þar var haldin til þess að koma á fót alþjóðlegum samtökum. Gekk sáttmálinn í gildi 24. október 1945 og telst sá dagur stofndagur samtakanna.

Í raun voru samtökin í upphafi áframhald á samstarfi bandamannanna, Bandaríkjanna, Bretlands og Sovétríkjnna og fleiri ríkja, sem háðu stríð gegn Möndulveldunum, Þýskalandi, Ítalíu og Japan. Yfirlýsing hinna Sameinuðu þjóða, alls 26 ríkja, sem gefin var út 1.janúar 1942, er undanfari samtakanna.

world warAfleiðinga síðari heimsstyrjaldarinnar gætir enn víða í starfi Sameinuðu þjóðanna. Í inngangsorðum sáttmála samtakanna segir að tilgangur þeirra sé að  „bjarga komandi kynslóðum undan hörmungum ófriðar, sem tvisvar á ævi vorri hefur leitt ósegjanlegar þjáningar yfir mannkynið.“ 

70 árum eftir stofnun Sameinuðu þjóðanna eru það enn sigurvegararnir í síðari heimstyrjöldinni sem eru fremstir meðal jafningja með því að eiga fast sæti í Öryggisráðinu; Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland.

Ísland varð sjálfstætt ríki 17.júní 1944 og 21.október tók svokölluð Nýsköpunarstjórn við völdum. Sósíalistaflokkurinn, arftaki Kommúnistaflokks Íslands settist í ríkisstjórn í fyrsta skipti, og þótti það vera í samræmi við tíðarandann og alþjóðlegt bandalag Sovétríkjanna og vestrænna lýðræðisríkja. Sjálfstæðismenn og Alþýðuflokksmenn voru í stjórninni ásamt sósíalistum en Framsóknarmenn voru í stjórnarandstöðu.

Aðildin að Sameinuðu þjóðunum ein var ein fyrsta meiriháttar ákvörðun sem nýstofnað lýðveldi þurfti að taka í utanríkismálum. Ríkisstjórn Íslands var boðið að ganga til liðs við hinar Sameinuðu þjóðir, en böggull fylgdi skammrifi.

Valur Ingimundarson, prófessor rekur aðdragandann að stofnun Sameinuðu þjóðanna í bók sinni Í eldlínu kalda stríðsins og segir að allir íslensku yaltastjórnmálaflokkarnir hafi lagt kapp á að Ísland yrði á meðal stofnríkja Sameinuðu þjóðanna. Það hafi hins vegar komið mörgum í opna skjöldu þegar það spurðist um miðjan febrúar 1945 að bandamenn hefðu ákveðið á Jalta-ráðstefnunni að gera það að skilyrði fyrir þátttöku í samtökunum að lýsa yfir stríði á hendur Þýskalandi og Japan fyrir 1.mars 1945.

Á fundi sínum með Churchill, forsætisráðherra Bretlands og Roosevelt, forseta Bandaríkjanna, þverneitaði Jósef Stalín, alvaldur Sovétríkjanna að bjóða öðrum ríkjum að ganga til liðs við bandamenn, en þeim sem þegar hefðu lýst yfir stríði. Ísland taldist til svokallaðra „associated nations“, en það voru ríki sem veitt höfðu Bandamönnum aðstoð án þess að lýsa yfir stríði. Roosevelt vildi að sumum þessara ríkja yrði boðin aðild gegn síðbúinnni stríðsyfirlýsingu og náðist samkomulag um það.

Tekinn var saman listi yfir þessi lönd en Ísland var ekki á listanum. Sjálfur Roosevelt, forseti tók málstað Íslands. „Ég vil gjarna bæta við einu nafni á listann…en það er yngsta lýðveldi jarðarinnar – Ísland.“

olafurthorsÁ lokuðum fundi Alþingis í lok febrúar 1945 bar Ólafur Thors, forsætisráðherra sem jafnframt var utanríkisráðherra fram tillögu þar sem hann sagðist telja að Ísland vegna afnota Bandamanna af Íslandi í þágu styrjaldarreksturs „eigi Islendingar sanngirniskröfu” á því að verða á meðal stofnenda Sameinuðu þjóðanna. „Íslendingar geta hinsvegar hvorki sagt öðrum þjóðum stríð á hendur né hð styrjöld af augljósri ástæðu, sem Alþingi felur ríkisstjórninni að gera grein fyrir.“

Sósíalistar lögðu fram eigin tillögu og vildu undirrita sáttmálann, jafnvel þó þeir vildu ekki ganga að skilyrðum um að lýsa yfir stríði heldur væntu þeir að fórnir Íslendinga í stríðinu „…verði þeim metin til jafns við beinar stríðsyfirlýsingar annarra þjóða.“

Tillögur sósíalista og framóknarmanna voru felldar og tillaga ríkisstjórnanna, sem sósíalistar samþykktu loks með semingi, var samþykkt, en Bandamenn skelltu hins vegar skolleyrum við „sanngirniskröfu“ Íslendinga.

Samtímaheimildir herma að á lokuðum fundum hafi Sósíalistaflokkurinn viljað lýsa yfir stríði, en þegar niðurstaðan lá fyrir vildu þeir alls ekki kannast við þetta og brugðust raunar ókvæða við, ef þessu var haldið fram.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem birtist í íslenskum blöðum segir að í febrúar hefðu borist skilaboð frá Washington um „eigi þyrfti að segja neinum stríð á hendur og eigi yfirlýsa stríðsástandi, heldur nægði að viðurkenna að hér hefði ríkt ófriðarástand síðan 11. desember 1941, og undirrita téða sáttmála. Myndi þá litið á Island sem eina hinna sameinuðu þjóða…“. Thor Thors, sendiherra Íslands í Thors hermann etcBandaríkjunum vildi alla tíð að Ísland gengi til liðs við bandamenn, en fékk ekki hljómgrunn fyrir það. Þær hugmyndir um að Ísland kæmist inn bakdyramegin vegna þess að það hefði orðið fyrir barðinu á ófriðnum, kunna að vera frá honum komnar (sjá viðtal við prófessor Þór Whitehead i þessu fréttabréfi). 

Sá böggull fylgdi hins vegar skammrifi að í  „téðum sáttmálum“ sem Ísland hefði orðið að undirrita, svo sem Yfirlýsingu hinna Sameinuðu þjóða, er skýrt tekið fram að þau ríki sem hann samþykki, séu í stríði við möndulveldin, þannig að þetta hefði komið á sama stað niður.  

Svo mikið er víst að þetta hlaut engan hljómgrunn. Sovétmenn vildu ekki veita Íslendingum neinn afslátt og Moskvuútvarpið deildi hart á Íslendinga fyrir að hvika hvergi frá hlutleysi. Bretar með stuðningi Bandaríkjamanna reyndu enn að liðka fyrir aðild Íslendinga eftir að Dönum var hleypt inn í samtökin á San Francisco-ráðstefnunni, en Sovétmönnum varð ekki þokað og Ísland varð ekki aðili að Sameinuðu þjóðunum fyrr en haustið 1946.

 (Birtist fyrst í Norræna fréttabréfi UNRIC um Ísland og Sameinuðu þjóðirnar í tilefni sjötugsafmælis samtakanna 24.október 2015)

Heimildir: Valur Ingimundarson: Í eldlínu kalda stríðsins. Samskipti Íslands og Bandaríkjanna 1945-1960, Reykjavík 1996, bls.36-38. Þór Whitehead, „Hlutleysi Íslands á hverfanda hveli“, Tímaritið Saga, 2006. Morgunblaðið 26.apríl 1945. Þjóðviljinn 26.apríl 1945.   Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna

Myndir eru úr safni Sameinuðu þjóðanna nema mynd af Ólafi Thors 1.) Varsjá í stríðslok 2.) Jalta-ráðstefnan á Krímskaga 3.) Ólafur Thors, forsætisráðherra 4.) Thor Thors, sendiherra, Kristinn Guðmundsson, utanríkisráðherra og Hermann Jónasson, þá þingmaður en bæði fyrr og síðar forsætisráðherra.