Það sem ég sá í Darfur – eftir Ban Ki-moon

0
509

Við tölum mikið um Darfur. En hvað vitum við? Oftast er sagt að þarna sé á ferðinni samfélag sem líður fyrir innbyrðis átök. Uppreisnarmenn herja á stjórnvöld, stjórnarherinn ræðst á uppreisnarmenn. Samt sem áður er raunveruleikinn flóknari en þetta og oft ekki auðvelt að henda reiður á því hver berst við hvern. Upp á síðkastið eru það æ oftar ættbálkar sem eiga í höggi við aðra ættbálka; stríðsherra við annan stríðsherra. 

Vandinn er heldur ekki lengur bundinn við Darfur. Átökin hafa breiðst út yfir landamæri og grafið undan stöðugleika heimshlutans. Og í Darfur er ekki síður við umhverfisvanda að glíma því átökin brutust út, að minnsta kosti að hluta til, vegna útbreiðslu eyðimarka, umhverfisspjalla og skorts á auðlindum, fyrst og fremst vatni.

Ég er nýkominn úr vikulangri ferð til Darfur og nágrennis. Ég fór þangað til að hlusta á skoðanir fólksins á staðnum– fulltrúa ríkisstjórnar Súdans, þorpsbúa sem flosnað hafa upp vegna átaka, starfsmanna líknarsamtaka, leiðtoga nágrannaríkja. Heimkominn hef ég skýra mynd af ástandinu. Það er engin ein lausn á deilunni. Darfur er skýrt dæmi um margslunginn vanda. Taka verður tillit til allra orsaka ófriðarins, ef stilla á til friðar. 

Allt sem ég sá og heyrði sannfærði mig um að slíkt er mögulegt. Og okkur verður að takast það. Ég heimsótti El Salam búðirnar utan við El Fasher, stærstu borg Darfur sem hýsa 45 þúsund flóttamenn. Ég fann til með þeim. Ég skynjaði vonleysi þeirra og örvæntingu. Ég hitti börn sem þekkja ekkert nema líf í flóttamannabúðum. Ég vildi stappa í þau stálinu. Ég hét því að við myndum gera allt sem í okkar valdi stæði til að koma á friði og hjálpa þeim að snúa aftur til heimahaganna. 

Við höfum stigið fyrsta skrefið í þá átt. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur gefið leyfi sitt fyrir að sendir verði 26 þúsund friðargæsluliðar til Darfur undir sameiginlegri forsjá Sameinuðu þjóðanna og Afríkusambandsins. Með því að fara til Darfur kynntist ég sjálfur þeim erfiðu aðstæðum sem sveitir okkar munu þurfa að glíma við og ég sá einnig að undirbúningur að komu friðargæsluliðsins er í fullum gangi

Engin friðargæsla nær árangri ef enginn friður er til að gæta. Við þurfum að þrýsta af alefli á að pólitísk lausn náist einnnig. Raunar var það aðal erindi mitt í ferðinni.  

Stjórn Ómars al-Bashirs í Khartoum ítrekaði skilyrðislausar skuldbindingar sínar um að styðja friðargæslusveitina og taka þátt í friðarviðræðum. Við náðum samkomulagi um að viðræður hæfust í Líbýu 27. október undir sameiginlegri forystu Afríkusambandsins og Sameinuðu þjóðanna. Stjórnin staðfesti einnig fyrirheit sín um að hætta þegar í stað vopnaviðskiptum en það höfðu uppreisnarmenn gert í Arusha í síðasta mánuði. Því miður bárust hins vegar fréttir fljótlega eftir brottför mina um spennu, átök og sprengjuárásir í bænum Haskanita í norðurhluta Darfur. Það er mikilvægt að stríðandi fylkingar sýni stillingu og skapi frjóan jarðveg fyrir viðræður.

Við þurfum að líta víðar þegar við fáumst við vanda Darfur. Stjórnmálaleiðtogar í Juba, höfuðstað suður-Súdans létu í ljós áhyggjur af því að Darfur myndi draga athyglina frá friðarsamkomulagi sem undirritað var fyrir tveimur árum og batt enda á langt borgarastríð. Við megum ekki gleyma viðkvæmu ástandinu þarna á meðan við tökumst á við vanda Darfur því ella er hætta á að nýtt stríð brjótist út og grafi undan friðarviðleitni okkar.

Friðarsamkomulagið verður að skjóta djúpum rótum ef það á að vera varanlegt. Í Juba og el Fasher heyrði ég marga leggja áherslu á að raddir sem flestra fengju að heyrast; jafnt ættbálkahöfðingja, fulltrúa sjálfstæðra stjórnmálaflokka, hópa kvenna og flóttamanna og embættismanna á staðnum og á landsvísu. Þörf er á samfélagssáttmála til að tryggja frið.

Ég hitti leiðtoga Líbýu Muamar Gaddafi, höfuðsmann í tjaldi hans í Sirte. Hann bauðst rausnarlega til þess að hýsa friðarviðræðurnar og sannfærði mig um að hann myndi gera sitt besta til þess að árangur næðist. “Það er núna eða aldrei,” sagði Líbýu-leiðtoginn og mælti fyrir munn þeirra mörgu sem telja að ná verði lokaárangri í þessum viðræðum.  

Í heimsókn minni voru mér sýndar vatnsveituframkvæmdir í Líbýu: hundruð kílómetra langar vatnsleiðslur sem flytja milljóna lítra ferskvatns um Sahara-eyðimörkina. Þetta er mögnuð sjón á þessum slóðum þar sem vatnsskortur er landlægur. Daginn áður hafði ég flogið yfir Tsjad-vatn – hið mikla stöðuvatn sem dregist hefur saman og er nú aðeins tíundi hluti af því sem það var. Þetta minnti á að framtíð þessa svæðis stendur og fellur að verulegu leyti með því að tryggður sé aðgangur að vatni.

Í N’Djamena sagði Idriss Deby forseti Tsjad mér að án vatns yrði engin efnahagsleg þróun.  Og án efnahagsþróunar, bætti hann við, myndu 250 þúsund flóttamenn frá Darfur í austurhluta Tsjad ekki eiga afturkvæmt heim. Öryggi og þróun, sagði hann,  eru kvistar á sama meiði. Að þessu leyti, getur alþjóða samfélagið leikið stórt hlutverk.

Öll rök hníga að því að leita þurfi heildstæðrar lausnar á deilunni í Darfur. Það dugar ekki að reyna að leita lausna á hverju einstöku atriði án þess að líta á heildina.  Ómfremdarástandið á sér margar orsakir. Við þurfum að glíma við þær allar: öryggi, stjórnmál, auðlindir, vatn, mannúðarmál og þróun. 

Það er að sönnu vandasamt að glíma við flókin vandmál. En við eigum engan annan kost til að ná varanlegri lausn. 

 – höfundur er framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna