Þekking er forsenda árangurs í glímunni við fíkniefni

0
772
Alþjóðlegur dagur til höfuðs fíkniefnaneyslu
Framboð og neysla fíkniefna hefur aldrei verið meiri. Mynd: Matthew T Rader on Unsplash

Óttast er að margir leiti á náðir fíkniefna þegar harðna tekur á dalnum í efnahagslífi í kjölfar COVID-19 faraldursins. Sameinuðu þjóðirnar leggja áherslu á mikilvægi réttra upplýsinga til að finna lausn á fíkniefnavanda heimsins.

26.júní er Alþjóðlegur dagur til höfuðs misnotkun ólöglegra fíkniefna og smygli. Þema dagsins að þessu sinni er „Betri þekking í þágu betri umönnunar.“

Alþjóðlegur dagur til höfuðs fíkniefnaneyslu
HIn árlega alþjóðlega fíkniefnaskýrsla

Fíkniefna- og glæpaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (UNODC) gefur út árlega skýrslu um fíkniefnavandann í heiminum.  Í skýrslunni 2020 er yfirlit yfir framboð og spurn eftir lyfjum sem innihalda ópíum, kókaín, kannabis og ýmsum öðrum fíkniefnum.

Ítarleg gögn sem birt eru í skýrslunni benda til skaðlegra heilsufarsáhrifa fíkniefnaneyslu, enn meiri en talið hefur verið hingað til.

Talið er að 35.6 milljónir manna glími við geðheilsuvanda af völdum fíkniefnaneyslu og að einn af hverjum átta hafi gengist undir meðferð. Ghada Waly, forstjóri UNODC segir að ástæða sé til að óttast að COVID 19 faraldurinn muni verða til þess að auka enn á vandann.

Niðursveiflan í efnahagslífinu af völdum COVID-19 kann að verða til þess að margir leiti á náðir fíkniefna eða neyðist til að taka þátt í smygli og skyldum glæpum.

Alþjóðlegur dagur til höfuðs fíkniefnaneyslu

„Fleiri nota fíkniefni og framboð ólöglegra lyfja er meira en nokkru sinni,“ segir Waly í yfirlýsingu. „Um allan heim auka fátækt, takmarkað framboð menntunar- og atvinnutækifæra, smán og félagsleg útilokun á þá hættu og þær afleiðingar sem fylgja fíkniefnaneyslu og hún dýpkar síðan ójöfnuð og grefur undan Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun.“

Réttar upplýsingar eru þýðingarmiklar

Margar bábiljur eru um fíkniefnaneyslu. Ein hin þrálátasta er að kenna megi fíkniefnaneytendum einum um fíkn sína. Margir, þar á meðal sumir ráðamenn, trúa því að í fíkn felist siðferðisbrestur og glæpur sem beri að refsa fyrir.

Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna lýstu því opinberlega yfir árið 2019 að fíkn væri margþátta heilsufarsvandamál. Hver einstaklingur hefur ekki fulla stjórn á þeim öllum og má nefna erfðir, geðheilsu og umhverfið. Af þessum sökum er einungis hægt að vinna bug á vandanum með lyfjameðferð, heilsugæslu og félagslegri vernd.

„Gagnkvæmur stuðningur og trúverðugar upplýsingar hafa verið traustar stoðir í viðbrögðum okkar við COVID-19 faraldrinum og hafa bjargað mannslífum,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í yfirlýsingu á myndbandi.

„Á sama hátt eru samvinna, áreiðanlegar upplýsingar og raunhæfar aðgerðir jafn nauðsynlegar til að takast á við hinar mörgu áskoranir af völdum fíkniefnavandans um allan heim, við að tryggja öryggi fólks og greiða fyrir að við náum Heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun.“

Nákvæmrar þekkingar er þörf til að takast á við fíkniefnavandann og skyld málefni. Sameinuðu þjóðirnar skora á fólk að taka þátt í að bæta þekkingu fólks á fíkniefnavandanum með því að nota myllumerkið #FactsForSolidarity.