Þriðjungur Gasa-búa þarf sálfræðiaðstoð

0
420
Gasa-svæðið
Lynn Matar, 11 ára segir frá erfiðleikunum eftir að gerð var loftárás á hverfið þar sem hús afa hennar er, í Rafah flóttamannabúðunum. Mynd: Ziad Taleb

Mannúðarskrifstofa Sameinuðu þjóðanna (OCHA) hefur skýrt frá mikilli aukningu tíðni geðsjúkdóma á meðal íbúa Gasa-strandarinnar, sérstaklega barna.

Átök voru á Gasa-ströndinni í byrjun ágúst þar til vopnahlé gekk í gildi 7.ágúst. Ísraelar gerðu 147 loftárásir á Gasa og palestínskir vígamenn skutu ellefu hundruð eldflaugum og sprengjum á Ísrael. 46 Palestínumenn voru drepnir og 360 særðir. 70 Ísraelar særðust.

Börn hart leikin

 Gasa-svæðið
Gasa-svæðið. Mynd:Ziad Taleb

17 palestínsk börn voru á meðal þeirra sem létust á Gasa í águst og þau hafa mátt líða miklar þjáningar að sögn Adele Khodr, forstjóri UNICEF í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku.

„Mörg börn eru að upplifa fimmtu átökin á fimmtán árum. Mörg þeirra lifa með langtíma geðrænum áhrifum af því að búa stöðugt við ofbeldi,” sagði Khodr.

Lynne Hastings mannúðarstjóri Sameinuðu þjóðanna á hereknu svæðunum, sagði að “mannúðarástandið á Gase hefur farið versnandi og síðustu átök hafa gert illt verra. Við erum reiðubúin að vinna með öllum hlutaðeigeandi til að tryggja að þörfum fólk sé sinnt.

Að búa við stöðug vonbrigði

Dr. Yousef Shahin yfirmaður á heilsugæslusviði UNRWA, Palestínu-hjálparinnar, sagði að stofnunin sinnti 87 þúsund tilfellum á Gasasvæðinu.

„Algeng einkenni eru þunglyndi og flogaveikiköst, en einnig eru dæmi um króníska líkamlega sjúkdóma sem eiga sér geðrænan uppruna.“

65% eru fyrir neðan fátækramörk

 Gasa-svæðið.
Mynd: OCHA

Dr. Sami Owaida frá heilsugæslu Gasastrandarinnar telur að geðræn vandamál megi rekja til hernáms Ísraels og umsáturs um Gasa, sem staðið hefur yfir í 15 ár. „65% íbúanna eru fyrir neðan fátæktarmörk og rúmlega 60% eru atvinnulausir.“

Dr. Ghada Al Jadba, yfirmaður heilbrigðisáætlunar UNRWA tekur undir þessi orð og segir að íbúarnir búi við „stöðug vonbrigði og sálræna afturför sökum versnandi efnahagslegra-, félagslegra og pólitískra aðstæðna.“

„Stór hluti Gasa-borgar var eyðilagður í átökunum í maí 2021, hundruð drepin og særð. Þetta hafði í för með sér sálrænt áfall. Þessu til viðbótar þurfti fjólk að glíma við skort á rafmagni og vatni, aukningu fátæktar og atvinnuleysis. Þetta leiddi svo til enn versnandi heilbrigðis og sálræns ástands íbúa Gasa.“

Rúmlega tvær milljónir búa á Gasa-svæðinu. Þar er aðeins eitt geðsjúkrahús með fimmtíu rúmum.