Þúsundir barna taka þátt í fyrsta handþvottadeginum

0
550

Handþvottur er ein áhrifaríkasta og kostnaðarminnsta forvörnin gegn sjúkdómum og barnadauða.
Frá Máritaníu til Tjad, Níger til Síerra Leóne, Fílabeinsströndinni til Austur- og Vestur-Kongó verða þorpssamfélög, leikvellir og skólastofur fullar af lífi á alþjóðlegum handþvottadegi, miðvikudaginn 15. október. Aldrei áður hefur verið farið í annað eins fræðsluátak til að vekja athygli á mikilvægi handþvottar á líf og heilsu barna.

Nærri tvær milljónir barna láta lífið árlega af völdum niðurgangs og um 500 þúsund af þessum dauðsföllum eiga sér stað í Vestur og Mið-Afríku, en þar er niðurgangur þriðja stærsta orsök barnadauða. Einföld athöfn eins og handþvottur gæti leitt til þess að komið yrði í veg fyrir helming þessarra dauðsfalla.

Bæði er hægt að koma í veg fyrir niðurgang og veita meðferð við honum. Samt sem áður verða börn í þróunarlöndunum enn fyrir barðinu á sjúkdómnum. Þau geta misst úr skóla, viðstaða gegn öðrum sjúkdómum minnkar, vöxtur þeirra hamlast, þau verða vannærð, fátæk og í verstu tilfellum deyja.

Hinn alþjóðlegi handþvottadagur vekur athygli á þessu einfalda og áhrifaríka ráði, sem oftar en ekki virðist vera litið framhjá.

Ein áhrifaríkasta forvörnin gegn barnadauða

Þegar fræðsla á sér stað, ásamt handþvotti með sápu, er það ein árangursríkasta og kostnaðarminnsta heilsutengda forvörnin sem um getur. Sönnur hafa verið færðar á að þessar aðgerðir geti ekki bara minnkað hættuna á niðurgangi, heldur einnig komið í veg fyrir sjúkdóma eins og kóleru og blóðkreppusótt um allt að 48-59 prósent. Nýlega hefur verið sýnt fram á að reglulegur handþvottur með sápu dregur úr lungnabólgu um 25%.

Á alþjóðlega handþvottadeginum munu börn, kennarar og foreldrar koma saman með þekktum einstaklingum, yfirvöldum, frjálsum félagasamtökum og fulltrúum einkageirans til að vekja athygli á hreinlæti um allan heim og stuðla að vitundarvakningur um handþvott.

Í Níger munu UNICEF, yfirvöld og UNILEVER standa saman að fræðsluátaki um handþvott með sápu sem mun ná til 89 þúsund skólabarna á þessu skólaári.

Á Fílabeinsströndinni ætlar UNICEF að standa að uppákomum í 100 skólum með yfirvöldum og farsímafyrirtækinu MTN. Uppákomurnar munu ná til 30 þúsund barna.

Hjálpar til við að ná Þúsaldarmarkmiðunum

Aukin fjárfesting í verkefnum sem snúa að handþvotti mun skipta miklu máli í árangri okkar til að ná Þúsaldarmarkmiðinu um að draga úr barnadauða um tvo þriðju fyrir árið 2015 (Þúsaldarmarkmið 4). Í Vestur og Mið-Afríku deyja tvö börn af tíu áður en þau ná fimm ára aldri.

„Að gera handþvott með sápu að venjubundinni athöfn hjá börnum og umönnunaraðilum þeirra gæti bjargað fleiri lífum en bólusetning eða læknismeðferð,“ sagðir Esther Guluma, yfirmaður UNICEF í Vestur- og Mið-Afríku.

„Í þessu átaki mun samstarf hins opinbera og einkageirans skila miklum árangri fyrir börn.“

Um alþjóðlegan handþvottadag

Hinn alþjóðlegi handþvottadagur vekur athygli á þessu mikilvæga málefni nú þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur einnig gert þetta ár að alþjóðlegu ári hreinlætis. Handþvottur spilar stórt hlutverk í því að ná Þúsaldarmarkmiðum S.þ. sem tengjast bættri heilsu, menntun og minnkun á fátækt og barnadauða, sem og aðgang að hreinu vatni og hreinlæti.
(Heimild: UNICEF.is)