Til hamingju með hamingjudaginn!

0
460
happy22

happy22

20. mars 2013. Bobby Mc Ferrin söng sig inn í hjörtu heimsins á níunda áratugnum með því að hvetja alla til að leggja áhyggjur á hilluna og gefa sig hamingjunni á vald : “Don´t worry be happy!”.

Boðskapurinn er sígildur og á jafnvel við í dag og þá.

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst 20. mars 2013 fyrsta Alþjóðadag hamingjunnar.

Þessi ákvörðun er til marks um aukna vitund um að framfarir séu ekki einungis mældar í vexti efnahagslífsins heldur skipti hamingja og velferð mannsins fullt eins miklu máli. Þetta er ástæða þess að 193 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu ályktun um að 20. ,ars ár hvert skyldi helgaður hamingjunni; dagur aðgerða til að stuðla að hamingjusömum heimi.

Það var Bútan sem átti frumkvæðið að ályktuninni en íbúar landsins eru taldir einhverjir þeir hamingjusömustu í heimi. Konungsríkið í Himalajafjöllunum trónir ekki hátt á listum yfir auðugustu ríki heims en hafnar því að efnisleg gæði séu eini algilidi mælikvarði um þróun mannsins. Af þessum sökum ákvað Bútan að berjast fyrir því að hamingjan yrði tekin á dagskrá í alþjóðlegu samhengi.

“Eftirsókn eftir hamingju er í fyrirrúmi í lífi sérhvers manns,” segir Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni dagsins. “Fólk um allan heim vill lifa hamingjusömu og innihaldsríku lífi án ótta og skorts og í friði við náttúruna.”

Val þessa tiltekna dags var engin tilviljun. 20. mars markar jafndægur að vori : þegar dagur og nótt eru jafnlöng og styrkir það boðskap dagsins um stöðugleika og frið. Sameinuðu þjóðirnar hvetja aðildarríkin; alþjóðleg- og svæðisbundin samtök auk almannasamtaka til að breiða út boðskap hamingjunnar. Fjöldi viðburða eru á döfinni víða um heim í tilefni dagsins, allt frá “flash mob” tileinkuðum jákvæðum boðskapi á lestarstöð í Lundúnum til “hlátur áskorunar” í Hong Kong, að ógleymdum ókeypis faðmlögum í Washington D.C.!

“Á þessum fyrsta alþjóðlega hamingjudegi skulum við sem fyrr einbeita okkur að því að efla sjálfbæra þróun með þátttöku allra og heita því að hjálpa öðrum. Þegar við vinnum í almannaþágu erum við um leið að auðga okkur sjálf. Samúð eflir hamingju og rennir stoðum undir þá framtíð sem við viljum,” segir Ban Ki-moon.

Mynd: Hamingjusöm skólabörn á Indónesíu. UNDP/Philip West