A-Ö Efnisyfirlit

Tími kominn til að binda enda á kjarnorkuvána

Þess er minnst á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að 75 ár eru liðin frá kjarnorkuárásunum á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki. Í myndbands-ávarpi í dag vottaði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fórnarlömbum árásanna virðingu sína og lauk lofsorði á eftirlifendur og baráttu þeirra gegn kjarnorkuvopnum.

Í kjallaragrein sem birt er í dagblöðum víða um heim, þar á meðal Fréttablaðinu, segir Guterres að tími sé kominn til að árétta „þann sameiginlega skilning okkar að enginn getur sigrað í kjarnorkustríði sem því ber ekki að heyja.“ Greinin fylgir hér að neðan.

Tími kominn til að binda enda á kjarnorkuvána

eftir António Guterres

Í þessum mánuði minnumst við 75 ára afmælis kjarnorkuárásanna á Hiroshima og Nagasaki sem færðu mannkyninu heim sanninn um eyðingarmátt einnar kjarnorkusprengju. Langvarandi þjáningar hibakusha – eins og þeir sem lifðu af eru kallaðir í Japan – ættu að vera okkur hvatning til að útrýma öllum kjarnorkuvopnum. Eftirlifendurnir hafa sagt okkur sögur sem ættu aldrei að gleymast um þann hrylling sem íbúar Hiroshima og Nagasaki máttu þola. Engu að síður hefur kjarnorkuógnin enn aukist.

Fitjað hefur verið upp á ýmsum samkomulögum og úrræðum til þess að koma í veg fyrir að þessum einstaklega skaðlegu vopnum sé beitt og stefnt að því að útrýma þeim um síðir. En lítil framþróun hefur orðið á þessu sviði undanfarna áratugi og farið er að fjara undan þessu regluverki. Hættan á því að kjarnorkuvopnum sé beitt viljandi eða óviljandi eða fyrir misskilning er verulega mikil.

Vaxandi spenna

Spenna hefur farið vaxandi á alþjóðavettvangi og traust rýrnað á milli ríkja. Samskipti þeirra ríkja sem ráða yfir kjarnorkuvopnum hafa í vaxandi mæli þróast upp í hættulega árekstra sem ógna stöðugleika. Ríkisstjórnir treysta að miklu leyti á kjarnorkuvopn til að tryggja öryggi. Stjórnmálamenn hafa uppi stóryrði um hugsanlega notkun þeirra og á sama tíma er gríðarlegum fjárhæðum varið til að auka þann skaða sem þau valda; fé sem betur væri varið í friðsamlega sjálfbæra þróun.

Tilraunir með kjarnorkuvopn höfðu um áratugaskeið hörmulegar mannlegar og umhverfislegar afleiðingar. Þessum leifum eldri tíma ber að kasta á öskuhaug sögunnar. Það markmið næst einungis með lagalega bindandi, sannreynanlegu banni við öllum tilraunum með kjarnorkuvopn.  Sáttmálinn um bann við kjarnorkutilraunum hefur sannað tilverurétt sinn en engu að síður hafa sum ríki ýmist ekki skrifað undir hann eða ekki staðfest hann. Af þeim sökum hefur hann ekki fyllilega þjónað tilgangi sínum sem úrræði til að uppræta kjarnorkuvopn.

Hiroshima
Kjarnorkuárásin á Hiroshima var hin fyrsta í sögunni en 3 dögum síðar var varpað kjarnorkusprengju á Nagasaki.

Rétt eins og loftslagsbreytingar eru kjarnorkuvopn ógn við samfélög okkar. Eyðingarmáttur flestra þeirra rúmlega þrettán þúsund kjarnorkuvopna sem nú eru í vopnabúrum heimsins, er mun meiri en sprengjanna sem varpað var á Hirohsima og Nagasaki. Hvers kyns beiting þeirra myndi hrinda af stað mannlegum harmleik af ólýsanlegri stærðargráðu.

Enginn sigrar í kjarnorkustríði

Það er tími komin til að endurvekja þann sameiginlega skilning okkar að enginn getur sigrað í kjarnorkustríði sem því ber ekki að heyja. Við ættum að snúa aftur til þess sameiginlega markmiðs að stefna að kjarnorkuvopnalausum heimi og endurnýja þann anda samvinnu sem leiddi til sögulegra áfanga í átt til eyðileggingar kjarnorkuvopna.

Bandaríkin og Rússneska sambandslýðveldið búa yfir 90% allra kjarnorkuvopna og því ber þeim að veita forystu. Sannreynanleg þrep felast í nýja “START” samkomulaginu. Framlenging þess í fimm ár myndi skapa ráðrúm til að semja um ný samkomulög sem gætu hugsanlega náð til nýrra ríkja sem búa yfir kjarnorkuvopnum.

Á næsta ári munu Sameinuðu þjóðirnar hýsa ráðstefnu þar sem farið verður í saumana á samningnum um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna (NPT) sem er einn árangursríkasti alþjóðlegi samningur í öryggismálum. Hann felur í sér einu samningsbundnu fyrirheit fimm stærstu kjarnorkuvopna-ríkjanna um að stefna að eyðingu kjarnorkuvopna. Einnig kveður hann á um sannreynanlegar skuldbindingar ríkja um að afla ekki og þróa ekki kjarnorkuvopn. Þar sem hann nær næstum því til allra ríkja er stór hluti alþjóðasamfélagsins bundinn af þessum ákvæðum.  Yfirferðarráðstefna NPT samningsins er gott tækifæri til að vinna gegn því að grafið sé undan alþjóðlegri reglu í kjarnorkumálum.

Harmleikurinn má ekki endurtaka sig

Það er þakkarvert að flest aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru staðföst í stuðningi sínum við markmiðið um kjarnorkuvopnalausan heim. Þetta kom skýrt fram þegar 122 ríki studdu samþykkt sáttmálans um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna. Ríkin skilja að afleiðingar hvers kyns beitingar kjarnorkuvopna yrðu hörmulegar. Við getum ekki tekið áhættuna af því harmleikurinn í Hiroshima og Nagasaki endurtaki sig með hugsanlega enn verri afleiðingum. Um leið og við íhugum þær þjáningar sem hibakusha máttu þola ber okkur að líta á þennan harmleik sem brýningu til mannkynsins um að endurnýja kröfuna um kjarnorkuvopnalausan heim.

António Guterres er aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna

Fréttir

Að efla réttindi fatlaðra

🇺🇳 75 ára afmæli – 75 dæmi um að Sameinuðu þjóðirnar skipti sköpum 🇺🇳 Sameinuðu...

Guterres segir að lýð- og þjóðernishyggja hafi brugðist

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði í dag á Allsherjarþingi samtakanna að heimurinn stæði...

Forsætisráðherra: jafnrétti verði í fyrirrúmi í endurreisn eftir COVID-19

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hvatti til þess að “jafnrétti kynja og kynþátta” verði í fyrirrúmi...

UNICEF og samskiptamiðlar sameinast gegn neteinelti

Helstu samskiptamiðlar hetims hafa tekið höndum saman með UNICEF í baráttunni gegn neteinelti. Barnahjálp Sameinuðu...

Álit framkvæmdastjóra