Tími til kominn að takast á við malaríu eftir Ban Ki-moon

0
484

Öryggisverðirnir sem fylgja mér hvert fótmál láta sér fátt fyrir brjósti brenna. Þeir láta sér hvergi bregða þótt við þurfum að brjóta okkur leið í gegnum óstýrlátan mannfjölda eða ferðast um átakasvæði. En þegar ég var á ferð um Austur-Afríku um daginn, gengum við inn í moskítóflugnager. Þeim var svo  sannarlega brugðið þegar þessi óvopnuðu skordýr gerðu árás. 

Malaría eða mýrakalda er miskunnarlaus morðingi. Sex börn eða fleiri í heiminum deyja á álíka löngum tíma og það tekur að lesa þessa grein. Á hverju ári veikist um hálfur milljarður manna af völdum malaríu. Meir en ein milljón deyr. 

Sérfræðingar segja að malaría minnki hagvöxt í Afríku um 1.3% á ári og hamli þróun. Talið er að kostnaður vegna minni framleiðni nemi tugum milljarða dollara á ári. Það er ekki óalgengt að allt að 40% útgjalda heilbrigðiskerfisins fari í baráttuna við malaríu í ríkjum þar sem hún er skæð. Þetta hefur hroðalegar afleiðingar fyrir heilbrigði, velferð og þróun.  

Þetta er óásættanlegt, ekki síst vegna þess að það er bæði hægt að koma í veg fyrir útbreiðslu malaríu og lækna hana.

Alþjóðasamfélagið hefur brotið banvænar farsóttir á bak aftur. Bólusótt hefur verið útrýmt. Verið er að skrifa lokakafla í sögu baráttunnar gegn mænusótt. Við getum að vísu ekki útrýmt malaria í einu vetfangi en við getum náð tökum á útbreiðslu hennar og fækkað fórnarlömbunum verulega ef við leggjumst öll á eitt.

Í dag 25. apríl heldur alþjóðasamfélagið í fyrsta skipti umm á Alþjóðlegan dag malaria. Á þessum degi ýtir Sameinuðu þjóða fjölskyldan og bandamenn hennar úr vör nýju alþjóðlegu frumkvæði til að herða baráttu okkar gegn malaríu. 

Alþjóðasamfélagið ætlar nú í fyrsta skipti að leggja til allsherjar atlögu við malaríu. Fyrri herferðir hafa skilað talsverðum árangri en ekki hefur verið bolmagn til að sinna öllum sem eru í hættu. Hingað til hefur einungis verið hægt að sinna ungum börnum og barnshafandi konum – þeim tveimur hópum sem eru í bráðastri hættu. Við höfum bjargað mannslífum en stórir hópar fólks hafa verið berskjaldaðir fyrir sjúkdómnum sem síðan hefur ýtt undir hann og auðveldað útbreiðslu hans. Af þessum sökum hefur malaría verið landlæg í Afríku sunnan Sahara, Asíu, Suður-Ameríku og Karíbahafinu. 

Það eina sem þarf til að ná árangri er að dreifa rúmnetum í stórum stíl og lyfjum auk innanhúsúða. Það kostar minna en tíu dollara (um 75 krónur) að kaupa og dreifa skordýraeiturshúðuðum rúmnetum sem duga í allt að fimm ár. Þessi ódýra fjárfesting er fimm ára vörn gegn malaríu. Þiggjendur þessarar aðstoðar geta stundað nám unnið sína vinna og skilað sínu til samfélagsins.   

Það er varla hægt að hugsa sér að hægt sé að verja 75 krónum betur. Sem dæmi um árangur má nefna að á síðustu þremur árum hefur barnadauði í Eþíópíu minnkað um helming. Barnadauði í Rúanda hefur minnkað um tvo þriðju. Í báðum löndum var milljónum skordýraeitursúðuðum rúmnetum dreift auk malaríulyfja til þeirra sem þurftu á að halda

Nú þurfum við að herða róðurinn í öllum ríkjum sem malaría herjar á. Þess vegna set ég nú fram djarfa en framkvæmanlega áætlun ásamt samtökunum Roll Back Malaria og Ray Chambers, sérstökum fulltrúa mínum í baráttunni við malaríu. Markmið okkar er að stöðva dauðsföll af völdum malaríu með allsherjarátaki í Afríku fyrir árslok 2010. 

Í þessu felst að öllum sem stafar hætta af malaríu í Afríku séu útveguð rúmnet af þessu tagi og úðar til notkunar innanhúss. Að auki verður að sjá heilsugæslunni fyrir úrræðum til að lækna og greina malaríu. Og það verður að grípa til sérstakra aðgerða fyrir barnshafandi konur á svæðum þar sem tíðni malaríusmits er mikil. Dreifikerfi verður að efla og auka og þar verður að treysta á heilsugæslustarfsmenn. Og á meðan svo margir deyja úr malaríu sem raun ber vitni, eru rannsóknir og þróun með langtímaaðgerðir og upprætingu malaríu í huga, nauðsynlegar. 

Flestir deyja úr malaríu í Afríku en við getum ekki látið staðar numið þar. Moskítóflugur sem breiða út malaríu þekkja engin landamæri eins og önnur vandamál á dögum hnattvæðingar.

Tryggja verður áframhaldandi stuðning svo að ríki geti ekki aðeins skipulegt heldur einnig staðið undir aðgerðum gegn malaríu fram í tímann. Hefðbundnir bandamenn okkar á borð við Alþjóðabankann og Alþjóðasjóðinn gegn Alnæmi, berklum og malaríu þurfa að leggja fé í baráttuna með stuðningi einkageirans. Þau ríki sem sjúkdómurinn herjar á verða að gera áætlanir um herferðir sem ná til allra og sjá til þess að nægilegt og fyrirsjáanlegt fjármagn sé fyrir hendi næstu mánuði.  

Með því að binda enda á dauðsföll af völdum malaríu getum við blásið nýju lífi í umfangsmeiri herferð okkar til að kveða niður örbirgð í eitt skipti fyrir öll. Þetta er eitt helsta markmið Þúsaldarmarkmiðanna um þróun – hugsjóninni um betri heim sem leiðtogar allra ríkisstjórna veraldar ákváðu að hrinda í framkvæmd á tuttugustu og fyrstu öld. Við höfum bolmagnið og við höfum úrræðin. Það eru færri en þúsund dagar til loka 2010. Við skulum láta hendur standa fram úr ermum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.