Þróunaraðstoð í heiminum dregst saman

0
425

MDG gap

21. september 2012 – Þróunaraðstoð hefur minnkað á milli ára í heiminum í fyrsta skipti í mörg ár, að því er fram kemur í skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar gáfu út í dag. Varað er við því að færri Þúsaldarmarkmiðanna um þróun verði náð í tíma og í færri löndum ef svo heldur áfram sem horfir. Átta mælanlegum Þúsaldarmarkmiðum til að minnka fátækt í heiminum á að ná fyrir árið 2015. Mikilvægum markmiðum hefur þegar verið náð en í skýrslunni sem gefin var út í dag er varað við því að hægja kunni á þróuninni.

„Það er ástæða til að hafa miklar áhyggjur af niðurstöðum skýrslunnar,“ sagði Ban Ki-moon á blaðamannafundi í New York í morgun, þegar hann kynnti efni hennar. „Það er ljóst að við þurfum að efla félagsskap okkar ef við ætlum að ná Þúsaldarmarkmiðunum fyrir 2015, eins og stefnt er að.“ 

Skýrslan ber heitið: “Alheimsfélagsskapur um þróun: Frá orðum til athafna.” Í fyrsta skipti komast sérfræðingar á vegum Sameinuðu þjóðanna að þeirri niðurstöðu í þessari árlegu skýrslu um framgang Þúsaldarmarkmiðanna, að um afturför hafi verið að ræða á milli ára, á sumum sviðum. Fá dæmi voru um verulega framþróun.

Þróunaraðstoð náði hámarki árið 2010 en minnkaði um næstum þrjá af hundraði árið 2011 á föstu verðlagi og gengi. Að auki liðu fátæk ríki fyrir versnandi aðgang að mörkuðum fyrir útflutningsvörur sínar. 

„Ég ítreka ákall mitt til alþjóðasamfélagsins: varpið ekki byrðum vegna samdráttarins á herðar hinna fátæku, hvorki í ykkar eigin landi né erlendis,“
 sagði Ban á blaðamannafundinum í New York.

Góðu fréttirnar eru að Þúsaldarmarkmið hafa þegar náðst um fækkun fátækra, bættan aðgang að vatni, minnkun fátækrahverfa og jafnari stöðu drengja og stúlkna í grunnskólum. Mikill árangur hefur náðst í að fjölga þeim sem fá grunnmenntun og hafa aðgang að HIV meðferð.

Enn er mögulegt að Þúsaldarmarkmiðunum verði náð en aðeins ef ríkisstjórnir standa við heit sem gefin voru fyrir meir en áratug og nægur alþjóðlegur stuðningur fæst, segir í skýrslunni. 

Sem fyrr hafa aðeins fimm þróuð ríki í heiminum náð því marki sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett um að láta 0.7% af þjóðartekjum renna til þróunaraðstoðar. Svíar eru rausnarlegastir allra ríkja í heiminum en Norðmenn koma skammt á eftir og svo Lúxemborgarar, Danir og Hollendingar.

Sjá nánar um kynninguna í New York, þar á meðal myndband: http://www.un.org/apps/news/story.asp?NewsID=42941&;Cr=mdg&Cr1=#.UFxD0660KSo

Sjá nánar um Þúsaldarmarkmiðin og sögu þeirra: http://www.unric.org/is/upplysingar-um-st/22

 

Mynd: Blaðamannafundur í New York í morgun: SÞ-mynd: Paulo Filgueiras