Þróunarhjálp: Milljarði bætt við á fjárlögum

0
517

Malavi

18. september 2012. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra segir að framlög til þróunarmála verði aukin um einn milljarð í nýja fjárlagafrumvarpinu. Í grein sem utanríkisráðherra skrifar í Fréttablaðið í dag segir hann telja þetta “sögulegustu” tillögu frumvarpsins.

“Þróunarhjálp er okkar leið til að láta af höndum rakna til örsnauðs fólks í fátækustu ríkjum heims, “skrifar Össur. “Hún beinist ekki síst að mæðrum og börnum. Þróunarhjálp er meðal þeirra þátta sem ég hef lagt mesta áherslu á í starfi mínu sem utanríkisráðherra. Þess vegna gleðst ég einlæglega, eins og örugglega allir Íslendingar, yfir þessum sögulega áfanga.”

Í greininni bendir Össur á að þróunarhjálp hafi leitt til þess að barnadauði í heiminum hafi snarminnkað, en 14 þúsundum færri börn deyi nú daglega en fyrir 20 árum. “Íslendingar eiga örlítinn þátt í því kraftaverki – með stuðningi í gegnum þróunarhjálp og örlátt starf og framlög frjálsra félagasamtaka.”

Í grein sinni tekur utanríkisráðherra sem dæmi að fæðingardeildir og sjúkrahús hafi verið reist í Malaví fyrir tilstuðlan Íslendinga; fræðsla um hreinlæti og heilsuvernd, stóraukinn aðgangur að vatni og “einfaldir hlutir sem okkur finnst dálítið undarlegir eins og útikamrar sem hafa verið greiddir af þróunarhjálp, hafa gjörbreytt lífi fjölmargra”, bætir  Össur við.

“Þjóðin stynur stundum undan því að Alþingi sé aldrei sammála um stóru hlutina. Því er ekki til að dreifa þegar þróunarmál eru annars vegar. Einum rómi samþykkti Alþingi í fyrra tillögu mína um áætlun um þróunarsamvinnu 2011-14, og vildi meira að segja hraða framlögunum. Samkvæmt þeirri áætlun á að verja 0,25% af landsframleiðslu til þróunarmála á árinu 2013. Til að standa við samþykkt Alþingis þurfti að bæta milljarði króna í þróunarhjálp. Það var áhlaupsverk en fyrir þeim milljarði er nú gert ráð í tillögum frumvarps til fjárlaga næsta árs.

Þetta tryggir að Íslendingar geta staðið við loforð sín gagnvart fátækasta fólki heimsins,” skrifar Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra.

http://www.visir.is/nyr-milljardur-i-throunarhjalp/article/2012709189977

Mynd: Þróunarsamvinnustofnun.