Tugir þúsunda hafa látist í Írak

0
457
Iraq

Iraq
19.janúar 2016. Nærri 19 þúsund manns létust í átökum í Írak frá ársbyrjun 2014 til október 2015. Á sama tímabili særðust meir en 36 þúsund og 3.2 milljónir manna flúðu heimili sín.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur fram að talan kunni að vera hærri og að helmingur manntjónsins hafi orðið í höfuðborginni Bagdad.

„Almenningur má þola skefjalaust ofbeldi,“ sagir í skýrslunni. „Svokallað Íslamska ríki heldur áfram að fremja kerfisbundin ofbledisverk og brot á alþjóðlegum mannúðar og mannréttindalögum, sem í sumum tilfellum kunna að teljast til stríðsglæpa, glæpa gegn mannkyninu og jafnvel þjóðarmorðs.“

Úttektin var unnin á vegum sveitar Sameinuðu þjóðanna í Írak (UNAMIS) og skrifstofu Mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna (UNHCHR). Þar er einnig greint frá ólöglegum drápum og mannránum íraskra öryggissveita, vígasveita og kúrdísku Peshmerga-sveitanna. „Í sumum tilfellum hefur verið um að ræða hefndaraðgerðir gegn fólki sem með réttu eða röngu er talið tengjast Íslamska ríkinu.“ Öryggissveitir eru einnig gagnrýndar fyrir að láta undir höfuð leggjast að vernda óbretta borgara, einkum þá sem flúið hafa heimili sín.

GEDDOBruno Geddo, fulltrúi Flóttamannahjálpar SÞ í Írak skýrði frá því á blaðamannafundi hjá UNRIC í Brussel að hjálparsamtök ættu í vök að verjast því fé skorti, sérstaklega eftir að borgarastríðið í Sýrlandi blossaði upp.  Sem dæmi má nefna hefur orðið að minnka matarskammt handa hverjum og einum úr andvirði 33 Bandaríkjadala í aðeins þrettán og aðeins þeir verst settu að þeim 3.2 millljónum sem eru á vergangi geta fengið mataraðstoð.

Ján Kubiš, sérstakur erindreki aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna í Írak segir í yfirlýsingu að þrátt fyrir að Íslamska ríkið hafi látið undan síga, en langt sé frá að það hafi verið brotið á bak aftur. Hann skorar á alþjóðasamfélagið að styðja Íraka, meðal annars við uppbyggingu á svæðum þaðan sem íslamska ríkinu hefur verið stökkt á flótta.