Þúsaldarmarkmiðin tilnefnd til Nóbelsverðlauna

0
599

MDG6 EN

4.febrúar 2015. Níu núverandi og fyrrverandi danskir ráðherrar hafa tilnefnt Þúsaldarmarkmiðin um þróun til Friðarverðlauna Nóbels.

Mogens Jensen, viðskipta- og þróunarsamvinnuráðherra Danmerkur og átta fyrirrennarar hans í starfi færa þau rök fyrir tilnefningunni að Þúsaldarmarkmiðin (Millennium Development Goals, MDGS) hafi verið leikið stórt hlutverk í þróun á heimsvísu undanfarin fimmtán ár. Viðleitnin til að hjálpa fátækasta fólki jarðar verðskuldi verðlaunin 2015, árið sem markmiðin renna sitt skeið.

„Markmiðin hafa stuðlað að áþreifanlegum árangri, svo sem að helminga fátækt í heiminum og tryggja að 9 börn af hverjum 10 ganga nú í skóla,“ segir Mogens Jensen í yfirlýsingu.
„Þau hafa sameinað alþjóðasamfélagið um þá sýn að stuðla að þróun, stöðugleika og betri lífsskilyrðum í öllum heimshornum. Þau hafa verið framlag til friðsamari heims og verðskulda því Friðarverðlaun Nóbels. Ég gleðst yfir því að fyrrverandi þróunarráðherrar Danmerkur hafa snúið bökum saman til stuðnings tilnefningunni.“

Búist er við að Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykki ný þróunarmarkmið til að leysa Þúsaldarmarkmiðin af hólmi í september í ár og eru þau kennd við sjálfbærni. Þúsaldarmarkmiðin um þróun voru samþykkt í tilefni af alda- og árþúsundamótunum árið 2000. Þau eru átta markmið til að draga úr fátækt og hungri í heiminum, efla menntun og jafnrétti kynjanna svo eitthvað sé nefnt.