Sjálfbær þróunarmarkmið

0
862
Sustainable Development Goals LOGO Icelandic 1

Sustainable Development Goals LOGO Icelandic 1

Heimsmarkmið um Sjálfbæra þróun

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti Sjálfbær þróunarmarkmið 25. september 2015.

Markmiðin sem eru sautján að tölu ber ríkjum heims að ná fyrir árið 2030. Helst þeirra eru að útrýma sárustu fátæktinni í heiminum, auka velmegun jarðarbúa og hlúa að umhverfinu á sama tíma. Markmiðin eru hluti af þróunaráætlun sem ber heitið Agenda 2030. 

Markmiðin sautján tóku við af svokölluðum Þúsaldarmarkmiðum um þróun sem samþykkt voru um síðustu alda- og árþúsundamót og runnu út um áramótin 2015-16. Frá því Þúsaldarmarkmiðin voru samþykkt hafa 700 milljónir manna brotist út úr viðjum, auk þess sem mikill árangur hefur náðst í baráttu við sjúkdóma, aðgangi fólks að vatni og hreinlæti og jafnrétti kynjanna.

Sá grundvallarmunur er á Sjálfbæru þróunarmarkmiðunum er að þau ná til allra ríkja heims, ekki aðeins þróunarríkja og að þau hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

„Þetta eru markmið í þágu fólksins, aðgerðaáætlun sem miðar að því að uppræta fátækt í öllum sínum birtingarmyndum,“ sagði Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. „Þau eru óafturkallanlegan, eiga við alls staðar og munu engan skilja eftir. Markmiðið er að tryggja frið og velmegun með fólkið og plánetuna í fyrirrúmi.“

Samningaviðræður stóðu yfir í meir en tvö ár og hefur borgaralegt samfélag í aðildarríkjunum aldrei tekið eins mikinn þátt í mótun ákvarðana og að þessu sinni.

„Við erum staðráðin í frelsa mannkynið undan oki fátæktar og skorts á líftíma núlifandi kynslóða og græða og hlúa að plánetunni í þágu núverandi og komandi kynslóða“, segir í samþykktinni frá því í gær.

Sjálfbæru þróunarmarkmiðin tengjast innbyrðis og ber að líta á þau sem eina heild. Þau miða að því að ryðja burt hindrunum úr vegi fyrir sjálfbærri þróun með því að takast á við ójafnrétti, ósjálfbæra neyslu og framleiðslu, skort á mannsæmandi atvinnu, svo eitthvað sé nefnt.

 

Sjálfbær þróunarmarkmið:

Sustainable Development Goals POSTER Icelandic

1. Útrýma fátækt í allri sinni mynd alls staðar

2. Útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði

3. Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla á öllum aldri

4. Tryggja jafnan aðgang allra að góðri menntun og stuðla að símenntun fyrir alla

5. Tryggja jafnrétti kynjanna og styrkja frumkvæðisrétt allra kvenna og stúlkna

6. Tryggja aðgengi, og sjálfbæra nýtingu, allra á hreinu vatni og salernisaðstöðu

7. Tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði

8. Stuðla að viðvarandi sjálfbærum hagvexti og arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum fyrir alla

9. Byggja upp sterka innviði, stuðla að sjálfbærri iðnvæðingu fyrir alla og hlúa að nýsköpun

10. Draga úr ójöfnuði innan og á milli landa

11. Gera borgir og aðra búsetu manna örugga og sjálfbæra fyrir alla

12. Tryggja sjálfbæra neyslu og framleiðslumynstur

13. Grípa til bráðra aðgerða gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra

14. Vernda og nýta hafið og auðlindir sjávar á sjálfbæran hátt til að styðja við sjálfbæra þróun

15. Vernda, endurheimta og stuðla að sjálfbærri nýtingu landvistkerfa, sjálfbærri stjórnun skóga, berjast gegn eyðimerkurmyndun, stöðva og snúa við jarðvegseyðingu og sporna við hnignun líffræðilegs fjölbreytileika

16. Stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla, tryggja jafnan aðgang að réttarkerfi og koma á fót skilvirkum og ábyrgum stofnunum fyrir alla á öllum stigum

17. Styrkja framkvæmd og blása lífi í hnattrænna samvinnu um sjálfbæra þróun.

(Þýðing: Þróunarsamvinnustofnun Íslands)

Þúsaldarmarkmiðin um þróun

Á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í tilefni alda- og þúsaldarmótanna sem haldinn var í höfuðstöðvunum í New York í september 2000, samþykktu leiðtogar aðildarríkjanna að vinna að tímabundnum markmiðum til framtíðarþróunar. Sameinast var um að berjast gegn fátækt, hungri, sjúkdómum, ólæsi, umhverfisröskun og misrétti kvenna. Þessi markmið má nú finna í Árþúsundayfirlýsingunni. Jafnframt var ákveðið að vinna að þróunarmálum og var sameinast um átta mælanleg markmið til þróunar. Þessi átta markmið kallast Þúsaldarmarkmiðin um þróun. Þau voru samþykkt til fimmtán ár eða til ársloka 2015.

  • Markmið 1 – Útrýma sárri fátækt og hungri
  • Markmið 2 – Koma á alheimsgrunnskólamenntun
  • Markmið 3 – Stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna
    Markmið 4 – Draga úr ungbarnadauða
  • Markmið 5 – Bæta heilsu ungmæðra
    Markmið 6 – Berjast gegn útbreiðslu HIV/alnæmi, mýrarköldu og annarra sjúkdóma
  • Markmið 7 – Tryggja sjálfbært umhverfi
  • Markmið 8 – Þróa samstarfshópa á heimsvísu til þróunar