Þúsund aðgerðadagar

 

mdg-momentum-logo

Apríl 2013. Í september árið 2000 hittust forystumenn ríkja og ríkisstjórnar heimsins á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna til að marka alda- og árþúsundamótin. Þeir samþykktu átta markmið í þágu mannkynsins sem nefnd voru Þúsaldarmarkmiðin um þróun  (MDGs). Öflugt vígorð, “Við getum upprætt fátækt”, var samþykkt en það var að margra mati frekar hvatningarhróp en raunsætt markmið. En þegar litið er um öxl blasir við bjartari mynd en gagnrýnendur bjuggust við árið 2000.

5. apríl eru eitt þúsund dagar til stefnu þar til fresturinn til að uppfylla Þúsaldarmarkmiðin rennur út – árslok 2015. Mikið hefur vissulega áunnist í að uppræta sárustu fátæktina. Þúsaldarmarkmiðin eru árangursríkasta herferð á hendur fátækt sem um getur í veraldarsögunni. Ríkisstjórnir, alþjóðasamtök og almannasamtök um allan heim hafa lagst á eitt um að helminga örbirgð heimsins. Fleiri stúlkur sækja skóla. Færri börn deyja. Heimurinn berst enn við banvæna sjúkdóma svo sem mýrarköldu, berkla og HIV/Alnæmi. http://momentum1000.org/

Af þessum sökum er það því ekki eins fráleitt og ætla mætti að “Við getum upprætt fátækt.” Einkageirinn hefur líka tekið sinnaskiptum frá því árið 2000 og þróunarmarkmið eru ekki lengur talin til “góðgerðastarfsemi” heldur alvöru fjárfesting í framtíðinni. Af þessum sökum myndi ég veðja á að við munum á næstu þúsund dögum sjá stórt stökk fram á við í áttunda markmiðinu sem er að “Styrkja hnattræna samvinnu um þróun.”

En 2015 markar ekki endalok neins. Sameinuðu þjóðirnar hafa fitjað upp á hnattrænni samræðu og beðið almenning um að leggja í púkkið hugmyndir um hvaða markmið sé mikilvægast að stefna að eftir 2015. Takið þátt í samræðunni og segið okkur hvað ykkur finnst !
www.myworld2015.org.