Týnd kynslóð sýrlenskra barna

0
464

ramthajordan

13. mars 2013. Hætta er á að heil kynslóð barna beri þess aldrei bætur að hafa orðið fórnarlamb skefjalausra átaka í Sýrlandi.

Ofbeldi, flótti og skortur á brýnni þjónustu eiga eftir að setja mark sitt á þessi börn alla ævi. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) sem birt var í dag.
“Milljónir barna innan landamæra Sýrlands og í nágrannaríkjunum hafa horft upp á fortíð sína og framtíð fuðra upp innan um rústir og eyðileggingu þessara langvinnu átaka og hættan er sú að það sé týnd kynslóð sem nú vex úr grasi,” segir Anthony Lake, forstjóri UNICEF.

 70 þúsund manns hafa látist, ein milljón manna flúið land og 2 milljónir hafa flosnað upp innanlands. UNICEF telur að 2 milljónir barna hafi orðið fyrir barðinu á átökunum með einum eða öðrum hætti. 

Í skýrslu UNICEF segir að börn hafi þurft að horfa upp á ættingja og vini láta lífið og fyllist skelfingu við að heyra og sjá hrylling stríðsins.

Skortur á hvers kyns lágmarks heilsugæsu hefur valdið því að margs konar sjúkdómar herja á börnin svo sem öndunarsjúkdómar, og fimmti hver skóli hefur verið lagður í rust þar sem bardagarnir eru harðastir. Aðeins 6% barna í Aleppo ganga í skóla. Sjúkrahús og heilsugæslustöðvar hafa verið lagðar í rust og starfsfólkið er flúið.

Frá því átökin hófust hafa UNICEF og samstarfsaðilar einbeitt sér að því að útvega uppflosnuðum fjölskyldum innan Sýrlands og flóttafólki í nágrannalöndunum drykkjarvatn og hreinlætisaðstöðu, menntun og barnavernd
Fjórum milljónum manna hefur nú verið tryggður aðgangur að öruggu drykkjarvatni og farand-heilsugæsluteymi hafa bólusett hálfa aðra milljón barna við mislingum og mænusótt.Að auki hefur 75 þúsund börnum verið tryggður kennslustuðningur til að reyna að vinna upp tapaðar kennslustundir.

UNICEF útvegar 350 þúsund börnum í Jórdaníu, Líbanon, Írak og Tyrklandi lágmarksþjónustu á borð við aðgang að öruggu drykkjarvatni, hreinlætisaðstöðu, menntun, sérfræðiaðstoð og vernd gegn misnotkun og illri meðferð.
UNICEF segir hins vegar að sjóðir þess séu tómir. Barnahjálpin fór fram á 195 milljón dollara framlög í þágu sýrlenskra barna og fjölskyldna í desember en hefur einungis tryggt fimmtung þessarar upphæðar.

Mynd: faðir og sonur í flóttamannabúðum í Ramtha í Jórdaníu. UNICEF/Kate Brooks.