Umhverfisspjöll geta verið mannréttindabrot

0
438

earth day

22. apríl 2013.  “Því miður stöndum við jarðarbúar okkur ekki í stykkinu við að vernda og viðhalda umhverfinu og það hefur í för með sér að fólk nýtur ekki mannréttinda ,” segir hópur mannréttindasérfræðinga Sameinuðu þjóðanna í yfirlýsingu í tilefni af Degi Jarðar sem er í dag 22. apríl 

Fyrsti Jarðardagurinn var haldinn árið 1970 og frá þeim tíma hafa stór skref verið stigin til að takast stemma stigu við umhverfisspjöllum og nægir að nefna ósonlagið og dýr í útrýmingarhættu og mengun sjávar.

“Rétturinn til heilsu er háður því að umhverfið sé heibrigt,” segir Anand Grover, erindreki Sameinuðu þjóðanna á sviði réttarins til heilsu. Og “þegar eiturefni eru losuð eða leka og fólk í nágrenni við losunarstaði veikist eða jafnvel deyr, hafa mannréttindi á borð við réttinn til lífs og heilsu verið brotin,” bætir Marc Pallemaerts við en hann er sérstakur erindreki um eiturefni.

Catarina de Albuquerque, erindreki um réttinn til vatns og hreinlætis segir að óhreinsað skolp ógni umhverfinu og hafi dauða milljóna manna, sérstaklega barna í för með sér. “Rétturinn til hreinlætis, sem þýðir örugga urðun, er þverbrotinn víða.”

“Þegar árnar eru mengaðar er lífsafkomu fjölmargra stefnt í voða,” segir Olivier de Schutter, erindreki á sviði réttarins til fæðu.

“Þegar við mengum jörðina og sólundum auðlindum, þá brjótum við réttindi komandi kynslóða og gröfum undan alþjóðlakerfi sem byggir á lýðræðislegri þátttöku og jafnri skiptu auðs jarðarinnar,” segir loks Alfred de Zayas, óháður sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna á sviði sanngjarns og lýðræðislegs alþjóðlakerfis.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um þann vanda sem alþjóðasamfélagið stendur frammi fyrir vegna umhverfisspjalla, að sögn sérfræðingahópsins. “Alþjóðasamfélagið verður að vinna í sameiningu að því að takast á við þessi og önnur brýn umhverfisvandamál sem hafa mikil áhrif á það að fólk njóti mannréttinda sinna.”

Fyrsti Dagur jarðar var haldinn 22. apríl 1970 og er talinn hafa markað upphaf umhverfishreyfingar samtímans.

Mynd: Bílakirkjugarður spillir vatni sem eitt sinn var fagur á Stóra Reykjafjalli í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. SÞ-mynd/ Philip Teuscher