UN LIVE MUSEM – Safn sem er ekki bara stafrænt í orði

0
470

Tilkynnt hefur verið um metnaðarfull áform um að koma á fót svokölluðu “UN Live Museum” í Kaupmannahöfn.

UN Live safnið byggir á þremur stoðum; gagnvirk og stafræn virkni á netinu, útstöðvar um allan heim og safn sem muna rísa  í Kaupmannahöfn.

 „Ætlunin  er að skapa vettvang þar sem fólk getur fræðst um starf og markmið Sameinuðu þjóðanna, áttt í innbyrðis samskiptum og við Sameinuðu þjóðirnar sjálfar um þessi markmið og gildi,” segir Jan Mattsson, forstjóri safnsins í viðtali við Norrænt Fréttabréf UNRIC.

Stafrænt starf hefst strax á næsta ári þótt byggingin rísi síðar. Fjársöfnun stendur enn yfir en fimm ára fjárhagsáætlun hljómar upp á 350 milljónir Evra, þar á meðal byggingin í Kaupmannahöfn.

Þrír menn úr ólíkum áttum eru forsprakkar verkefnisins. Mattsson, er Svíi og fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og forstjóri UNOPS. Hann tók höndum saman við danska kaupsýslumanninn Henrik Skovby, formann Dalbert og íslensk-danska listamanninn Ólaf Elíasson. Ólafur stýrir hönnunar og innihalds nefnd verkefnisins.
 

„Hugsunin hefur frá upphafi verið sú að þetta sé safn á heimsvísu þar sem stafræni þátturinn er ekki eftirá-viðbót, heldur tæki til þess að virkja kraft og hugmyndir fjöldans neðan frá,” segir Ólafur í viðtali við Fréttabréfið.

„Það verður rými þar sem gestir og notendur geta fræðst, átt í samskiptum og verið virkir í krafti UN Live, en jafnframt nýst Sameinuðu þjóðunum í því að hlusta á og læra af fólkinu.”

Sameinuðu þjóðirnar eru ekki aðila að verkefninu, en í hópi á þriðja hundrað manns sem eru virkir, eru margir núverandi og fyrrverandi starfsmenn Sameinuðu þjóðanna.

Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna fagnaði tilkynningunni í yfirlýsingu.

„Aðalframkvæmdastjórinn hlakkar til samvinnu Sameinuðu þjóða-kerfisins og safnsins í viðleitni til að auka vitund um og afla stuðnings við Sjálfbæru þróunarmarkmiðin og starf okkar við að skapa betri framtíð fyrir alla,” sagði Ban.

Á meðal þeirra sem hafa lýst stuðningi við verkefnið eru þrír forverar Ban í embætti, Kofi Annan, Boutros Boutros-Ghali heitinn, Javier Pérez de Cuellar og nýkjörinn arftaki hans António Guterres.
 
 „Það er djúp sannfæring mín að við verðum að finna nýjar og skapandi leiðir til að virkja borgara í starfi Sameinuðu þjóðánna, að efla framgang helstu gilda þeirra á borð við mannlega reisn, virðingu fyrir mannréttindum og alþjóðlega samstöð,” segir Guterres. “UN Live safnið er mikilvægt skref í viðleitni okkar til að fræða og virkja fólk.”

 
Það er ekki síst sú staðreynd að heimsþekktur listamaður, Ólafur Elíasson, er á meðal þátttakenda, sem vekur athygli. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ólafur fylkir sér að baki hugsjónum Sameinuðu þjóðanna og nægir að nefna frægt verk hans og Grænlendingsins Minik Rosing, Ísúrið, í París í tengslum við COP21, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna fyrir ári.

„Sameinuðu þjóðirnar hafa unnið stórvirki á síðustu 70 árum, en almenningur virðist ekki lengur geta tengt sig tilfinningalega við þessi útbreiddu samtök,” segir Ólafur.

„Þau eru svo stór og þau miðast við samskipti á milli þjóða, með þeim afleiðingum að einstaklingar hafa ekki raunverulegan aðgang, og það hefur í för með sér að fólki finnst það ekki hafa nein áhrif og verður sinnulaus.”

„UN Live er vettvangur fyrir fólk fremur en þjóðir. Og ég held að list og menning hafi upp á margt að bjóða á slíkum vettvangi því menning hefur ekki tapað trausti fólksins. Hún glæðir samsömun, samstarf og skapandi núning.” Og það eru einmitt gagnvirkni af þessu tagi sem ég held að muni nýtast í að takast á við þýðingarmestu mál samtímans.”

Það má til sanns vegar færa að það hafi verið verk Ólafs The Weather Project, í Tate Gallery 2003 sem hafi aflað honum heimsfrægðar. Í Live Museum verkefninu á hann endurfundi við  við Tate og Louisiana safnið, þar sem hann hefur sýnt á undanförnum árum, á þann hátt að Lars Nittve sem stýrt hefur báðum söfnum er einn helst ráðgjafi verkefnisins.

„UN Live er eitt best hugsaða og skipulagða safna-verkefni sem ég hef kynnt á ferli mínum sem alþjóðlegur safnastjórnandi,” segir Nittve.

 Það eru ekki síst Áætlun 2030 um Sjálfbæra þróun og baráttan gegn loftslagsbreytingum sem valda því að Ólafur og félagar hans hafa sameinast  um þetta verkefni.

„Með  UN live – hnattræna safninu- erum við að bjóða upp á hlið að starfi Sameinuðu þjóðanna, og fylkjum liði að baki þeim gildum sem eru til dæmis kjarninn í hinum 17 sjálfbæru þróunarmarkmiðum. Við viljum skapa okkur, einstaklingunum valkost til að koma saman og vinna að jákvæðum breytingum.”