UNICEF á Íslandi hlaut fjölmiðlaverðlaun

0
469

fjolmidlaverdlaun2013minni

14.maí.2013. UNICEF á Íslandi hlaut í síðustu viku fjölmiðlaverðlaun landsnefnda UNICEF. Verðlaunin voru veitt fyrir kynningarátak UNICEF á Íslandi í tengslum við neyðarsöfnun fyrir Sahel-svæðið í Vestur-Afríku.

Eitt ár er liðið frá því að UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hringdi viðvörunarbjöllum um allan heim vegna hættuástands sem skapast hafði í átta ríkjum á Sahel-svæðinu. Varað var við því að ótal börn væru í bráðri hættu og gætu látið lífið næstu vikur og mánuði bærist þeim ekki hjálp.

Á Sahel-svæðinu ríkti þögul neyð sem fengið hafði litla sem enga fjölmiðlaathygli. Ástæðan var meðal annars þurrkar og uppskerubrestur. Hjá UNICEF ákvaðu menn að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að reyna að koma neyðarástandinu á kortið – áður en hungursneyð brytist þar út og meðan enn væri vel hægt að grípa inn í. UNICEF biðlaði þannig til umheimsins að veita svæðinu athygli og láta það ekki verða að manngerðum hamförum.
Bent var á að hér væri um eitt fátækasta svæði veraldar að ræða og tíminn væri naumur. Verandi langstærstu barnahjálparsamtök í heimi hefði UNICEF þekkingu, reynslu og getu til að bjarga lífi vannærða barna á svæðinu. Enn fremur var mikil áhersla lögð á að ná til barna áður en þau yrðu alvarlega vannærð.

Börn fá vítamínbættan graut í Ouagadougou, höfuðborg Búrkína Fasó

Viðbrögðin létu ekki á sér standa
Almenningur á Íslandi og íslenskir fjölmiðlar tóku afar vel við sér. Neyðarsöfnun var hrundið af stað á sama tíma um allan heim – en hvergi safnaðist hlutfallslega meira en hér á landi.

„Viðbrögðin létu ekki á sér standa og strax varð ljóst að fólk hér á landi áttaði sig á því hversu mikið var í húfi – að líf ótal barna væri beinlínis í hættu,“ segir Sigríður Víðis Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi.

„Það er okkur gleðiefni að segja frá því að UNICEF gat í fyrra meðhöndlað yfir 850.000 börn gegn alvarlegri bráðavannæringu á Sahel-svæðinu. Svo þetta sé sett í samhengi þá eru þetta rúmlega tíu sinnum öll börn á Íslandi,“ segir hún.

Framlög héðan frá Íslandi gerðu neyðaraðgerðirnar meðal annars mögulegar. Yfir 7.000 manns styrktu neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi og meira en tvö hundruð fyrirtæki lögðu henni lið, auk þess sem allir þeir fjölmörgu sem eru heimsforeldrar hér á landi gerðu hjálparstarfið mögulegt.

Mikil áhersla var lögð á að ná til barna áður en þau yrðu alvarlega vannærð

Lífsbjörg á næringarspítala
„Við erum hjartanlega þakklát fyrir stuðninginn og það traust sem í honum felst. Sjálf heimsótti ég eitt ríkjanna á Sahel-svæðinu í fyrra, Búrkína Fasó, og fór meðal annars á næringarmiðstöðvarnar þar sem börnin fengu meðhöndlun. Eina stúlku hitti ég á næringarspítala sem var svo vannærð og veik að ég hugsaði með mér að hún gæti ekki lifað það af – í hennar tilfelli væri þetta orðið of seint,“ segir Sigríður.

„Nokkru eftir heimkomu fékk ég þær gleðifréttir að litla stúlkan tórði ekki einungis heldur var hún búin að þyngjast um eitt og hálft kíló og öll að braggast. Á endanum fékk ég þær fregnir að búið væri að útskrifa hana af sjúkrahúsinu og hún komin heim til foreldra sinna! Mörg hundruð þúsund svona sögur urðu til á Sahel-svæðinu í fyrra – af áhyggjufullum foreldrum og andvökunóttum og síðan einlægri gleði yfir meðferð sem skilaði árangri.“
Fjölmiðlaverðlaununum fyrir árið 2012 deildi UNICEF á Íslandi með UNICEF í Bretlandi sem fékk velgjörðasendiherra sinn, Ewan McGregor, til að fylgja UNICEF eftir við að flytja lífsnauðsynleg bóluefni fyrir börn til nokkurra af afskekktustu stöðum heims. Með því undistrikaði leikarinn og vakti athygli á því hvernig UNICEF vinnur. Áherslan er á að ná til allra barna – hvar sem þau er að finna. (www.unicef.is)