UNIFEM styrkir friðarsamtök kvenna á Balkansskaga

0
451

 Framtíð Kosovo er enn í óvissu og gjáin milli þjóðarbrota á svæðinu er djúp. Samskipti Serba og Kosovo Albana eru lítil, tortryggni er ríkjandi og mörg ógróin tilfinningasár frá átökunum 1999. Frumkvæði tveggja kvennahreyfinga á svæðinu að stofna með sér Friðarsamtök er því bæði þarft og lýsir hugrekki.

Friðarsamtökin eru nýstofnuð samtök sem tvær kvennahreyfingar eiga aðild að, annars vegar Kosovo Womens Network, sem eru regnhlífarsamtök frjálsra félagsasamtaka albanskra kvenna í Kosovo, og hinsvegar Women in Black, Belgrade, sem eru félagsasamtök serbneskra kvenna sem hafa lagt áherslu á ábyrgð Serbíu í átökum síðustu ára og mikilvægi þess að horfast í augu við fortíðina.

UNIFEM hefur styrkt starfsemi beggja þessara hreyfinga á síðustu árum og fyrir ári síðan komu konur frá þessum samtökum saman í fyrsta sinn á ráðstefnu í Makedóníu. Í framhaldi voru Friðarsamtök kvenna (Women´s Peace Coaltion) stofnuð og er markmiðið að standa að ýmsum sameiginlegum verkefnum þar sem áhersla verður lögð á friðaruppbyggingu og samræður milli þjóðarbrota. Dæmi um verkefni í burðarliðunum eru heimsóknir serbnesku kvennanna á staði í Kosovo þar sem stríðsglæpir voru framdir árið 1999, en svipaðar heimsóknir hafa verið farnar til Bosníu á síðustu árum sem liður í fyrirgefningarferli og friðaruppbyggingu.

Um 100 konur úr samtökunum tveimur komu saman á ráðstefnu í Struga, Makedóníu, þann 1.-2. september síðastliðnum til að ræða verkefni framundan. Stuðningur UNIFEM við starfsemi Friðarsamtaka kvenna er hluti af verkefni UNIFEM í suðaustur Evrópu, en Ísland hefur verið eitt af lykil stuðningslöndum þessa verkefnis síðustu ár.

Frétt frá Auði Ingólfsdóttur, starfsmanni Íslensku friðargæslunnar og  sérfræðing hjá  skrifstofu UNIFEM í Makedóníu. (UNIFEM.is)