Varúð! Skammstafanir (og nokkur mjög löng orð)

0
776
CP26
Mynd: Ben White/Unsplash

Skammstafanir eru algengar í opinberri umræðu og sýnist sitt hverjum um hversu gagnlegar þær eru. Þær hafa þó þann kost að stytta verulega það pláss sem fer undir ákveðin heiti. Og ekki veitir af, því vissulega eru sum orð og orðasambönd sem algeng eru í alþjóðlegri umræðu bæði löng og torskilin. 

Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna úir og grúir af slíku, ekki síst í loftslagsmálum. Því var tekinn saman orða- og skammstafanalisti í aðdraganda COP26 ráðstefnunnar – talandi um skammstafanir! 

Lítum á nokkur dæmi:

COP26

COP26. Á máli leikmanna er þetta 26.Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna. COP stendur þá fyrir Conference of the Parties og vísar parties ekki til samkvæma heldur aðildar að Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC). Kannski er engin furða að gripið sé til skammstafana!

UNFCCC

COP26
Mynd: Sven Brandsma

UNFCCC varð til eftir Ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál og þróun í Rio de Janeiro 1992. Sú ráðstefna er oftast einfaldlega kennd við Rio eða nefnd Jarðar-leiðtogafundurinn. Markmið UNFCCC er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til þess að draga úr loftslagsbreytingum af mannavöldum.

COP fundir eru árleg þing aðildarríkja samningsins. Hist hefur verið hvert ár nema 2020 vegna COVID-19 heimsfaraldurisns. COP26 átti semsagt að fara fram á síðasta ári.

SDG eða Heimsmarkmið

Hefð hefur verið skapast fyrir því að tala um Heimsmarkmið og á ástkæra ylhýra málinu hefur heitið unnið sér þegnrétt. Á ensku, helsta vinnutungumáli Sameinuðu þjóðanna, er þetta ekki svo einfalt.

Heimsmarkmiðin sautján eru oftast nefnd á vettvangi samtakanna Sustainable Development Goals, orðrétt Sjálfbær þróunarmarkmið eða SDGs. Þá er ekki öll sagan sögð því að á máli diplómata er talað um 2030 Agenda for Sustainable Development, Áætlun 2030 fyrir sjálfbæra þróun.

Í borgaralegu samfélagi er hins vegar oftast nær talað um Global Goals for Sustainable Development og þaðan kemur heitið Heimsmarkmið um sjálfbæra þróun sem orðið hefur ofan á hérlendis.

NDC

Þessi skammstöfun stendur fyrir Nationally Determined Contribution, (NDC) eða Landsmarkmið á íslensku. Hér eru á ferðinni áætlanir einstakra ríkja um hvernig þau ætla að ná markmiðum Parísarsamningsins um aðgerðir í loftslagsmálum.

Net Zero

Net Zero eða nettó-núll vísar til fyrirætlana um að minnka losun eins mikið og hægt er, td.með því að koma á fót grænu hagkerfi og nota endurnýjanlega orku en vinna upp þá losun sem eftir er með mótvægisaðgerðum. Með þeim hætti verði “nettó” engin losun gastegunda sem valda gróðurhúsalofttegundum.

 1.5°C

Oft á eftir að visa til 1.5 á Celsius á meðan COP26 stendur yfir. Þar er vísað til þess að vísindamenn og ríkisstjórnir hafa komist að þeirri niðurstöðu að hitastig á jörðinni megi ekki hækka um meira en 1.5°C miðað við fyrir iðnbyltingu, annars muni ill fara. Iðnbylting er þá miðuð við miðja 18.öld.

Með þessu móti losni jarðarbúa við alverstu afleiðingar loftslagsbreytinga. Miðað við nýjustu tölfræði hefur jörðin nú þegar hitnað um 1.06 til 1.26 og jafnvel þótt  staðið verði við núverandi loforð mun hún hitna um 2.7°C á þessari öld.

Hópmynd af leiðtogum á COP21 2015 í París.

IPCC

 IPCC  er stytting á the Intergovernmental Panel on Climate Change. Ýmist er þetta þýtt á íslensku sem Milliríkjavettvangur um loftslagbreytingar eða einfaldlega Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna.

Nefndin var stofnuð 1988 af, annars vegar Alþjóða veðurfræðistofnuninni – varúð skammstöfun! –(WMO) og hins vegar Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP). Hlutverk hennar er að vera ríkisstjórnum heims til ráðgjafar um vísindalegar upplýsingar sem byggja má stefnumótun í loftslagsmálum á.

Skýrslur loftslagsnefndarinnar hafa mótað alþóðlega umræðu á Loftslagsráðstefnum Sameinuðu þjóðanna og víðar. Þannig var komist að þeirri niðurstöðu í skýrslu í ágúst síðastliðnum að ef ekki yrði gripið til tafarlausra, varanlegra og umfangsmikilla ráðstafana til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda væri um seinan að ná 1.5C markinu.

 Loftslagsfjármögnun

Hér er að vísu ekki á ferðinni skammstöfun, heldur hugtak sem á eftir að vera í deiglunni á COP26. Loftslagsfjármögnun snýst um það fé sem þarf að verja til þess að minnka losun sem valdur loftslagbreytingum. Auk þess fjármögnun aðgerða til að hjálpa fólki við viðnám og aðlögun að loftslagsbreytingum sem þegar eru orðnar.

Það sem mest verður rætt á COP26 er gamalt loforð sem þróunarríkjum var gefið. Á COP15 fundinum í Kaupmannahöfn náðist samkomulag um að auðug ríki létu andvirði 100 milljarðar Bandaríkjadala af hendi til þróunarríkja frá 2020 að telja. Því fé átti að verja til aðlögunar og mildunar áhrifa loftslagsbreytinga.

Ekki hefur verið staðið við þetta loforð. Talið er að loftslags fjármögnun nemi nú 80 milljörðum dala á ári. Af þessum sökum verður þetta mál til umfjöllunar á COP26.

G20

António Guterres  flytur ræðu á G20 fundinum í Riadh í Saudi Arabiu á síðasta ári. 

620 hópurinn stendur fyrir “Group of 20”. Hér eru á ferðinni 19 auðug ríki og Evrópusambandið.  Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur kveðið skýrt á um að G20 ríkjunum beri að leiða aðgerðir í loftslagsmálum. Saman hafa þau innan sinna vébanda 90% af hagkerfi heimsins, 75-80% af heimsviðskiptum og tvo þriðju hluta íbúafjölda heimsins.