Vatíkanið tekið á beinið

0
517

Vatikan

16.febrúar 2014. Nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna hefur yfirheyrt fulltrúa Páfagarðs um kynferðislega misnotkun barna í starfi kaþólsku kirkjunnar.

Vatíkanið hefur undirritað Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem er lagalega bindandi yfirlýsing um vernd barna. Sáttmálinn tók gildi 1990 og Páfagarður tók saman skýrslu árið 1994 um framkvæmd sáttmálans. Engin skýrsla var hins vegar gefin út næstu tíu árin.

Nefndin um réttindi barna (UNCRC) hefur í fyrsta skipti krafið fulltrúa Vatíkansins svara um alvarleg málefni sem snerta misnotkun barna.

Í júlí síðastliðnum birti SÞ-nefndin ýtarlegar upplýsingar um öll tilfelli um slíkt á vetttvangi kaþólsku kirkjunnar sem vitað er um frá árinu 1995. Vatíkanið segist hafa fjallað um 4 þúsund mál og að enn berist 600 kærur árlega um slíkt athæfi presta frá sjöunda, áttunda og níunda áratugnum.

Umræðan á vettvangi nefndarinnar fjallar ekki síst um í hve miklum mæli prestum og munkum var leyft að halda áfram starfi með börnum eftir að upp um athæfi þeirra komst, til hvaða aðgerða var gripið og hvort og þá hvernig reynt var að þagga niður í fórnarlömbum.