Vatn er líf eftir Ban Ki-moon

0
444

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skrifar grein í tilefni Alþjóðlega vatnsdagsins 22. mars sem birtist í dagblöðum víða um heim. 

22. mars höldum við hjá Sameinuðu þjóðunum upp á Alþjóðlega Vatns-daginn. Við ætlumst ekki til að fólk láti staðar numið og minnist þessa með mínútu þögn en kannski væri það ekki svo afleit hugmynd. Á tuttugu sekúndna fresti deyr barn af völdum sjúkdóma sem tengjast skorti á hreinu vatni. Það þýðir að alls tapast 1.5 milljón ungra lífa á hverju ári.  
 Meir en tveir og hálfur milljarður manna býr við hreinlætisaðstæður sem eru fyrir neðan allar hellur. Með því að hjálpa þeim væri ekki aðeins verið að fækka dauðsföllum, heldur vernda umhverfið, minnka fátækt og efla þróun. Ástæðan er sú að vatn er grundvöllur mikils hluta starfs okkar á þessum sviðum.
 
Vatn er lífsnauðsynlegt. Ólíkt olíu, getur ekkert komið í staðinn. En í dag gengur mjög á vatnsbirgðir í heiminum. Mannfjölgun eykur á vandann. Sama máli gegnir um loftslagsbreytingar. Hagvöxtur eykst og þorstinn einnig.  
 
Rétt eins og með olíuna, er tilhneigingin sú að vandamál sem rekja má til skorts á mikilvægri auðlind, fara þvert á landamæri. Talið er að loftslagsbreytingar og deilur sem tengjast vatnsskorti geti valdið blóðuguum átökum í fjörutíu og sex ríkjum með 2.7 milljarða íbúa á næstu árum. 56 ríki til viðbótar gætu orðið pólitískum óstöðugleika að bráð af sömu orsökum. Það er helmingur alls heimsins.  
 
Þetta er ekki spurning um ríka og fátæka, norður og suður. Kína beinir hundruð milljóna kúbík metra vatns í átt til Pekíng þar sem þurrkar eru landlægir vegna Ólympíuleikanna, en vatnsskortur verður samt viðvarandi í nokkur ár.. Í Norður-Ameríku nær hið mikla Colorado fljót sjaldnast til sjávar. Vatnsskortur herjar á þriðjung Bandaríkjanna og fimmtung Spánar.   
 
30 milljónir manna eru háðir vatnakerfi Tsjad vatns í mið-Afríku. Á síðustu þrjátí árum hefur vatnið minnkað svo mjög af völdum þurrka, loftslagsbreytinga, óstjórnar og ofnotkunar að það er aðeins tíundi hluti af því sem það var. Á ferð minni um Brasilíu síðastliðið haust varð ég að aflýsa ferð niður ein helstu kvísl Amason-fjóts. Hún hafði þornað upp.  
 
Undanfarið ár hefur ég reynt að vekja athygli á loftslagsbreytingum. Við sjáum árangurinn í “Bali vegvísinum”, þar sem lagður er grundvöllur að viðræðum um lagalega bindandi sáttmála um minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Honum er ætlað að taka við af Kyoto-bókuninni sem rennur út 2012. Á þessu ári mun ég beita mér á svipaðan hátt til að vekja almenning til vitundar um Þúsaldarmarkmiðin um þróun.  
 
Eitt markmiðanna er að helminga fjölda jarðarbúa sem hefur ekki aðgang að heilsusamlegu vatni fyrir árið 2015. Þetta er mjög brýnt verkefni.  Þegar leitað er róta vanda í heilbrigðis- og þróunarmálum sem fátækasta fólk heims glímir við; sjúkdóma á borð við malaríu og berkla; hækkandi matarverð og umhverfisspjöll; reynist orsökin oft sú sama: skortur á vatni.  
 
Nú í septembere mun ég boða hátt setta ráðamenn alls staðar að úr heiminum til leiðtogafundar í New York til að ræða hvernig Þúsaldarmarkmiðunum skuli náð, sérstaklega í Afríku. Á meðan verðum við að einbeita okkur að því að gera betri áætlanir um stjórnun vatnsnotkunar, til þess að nota það á skilvirkan hátt og stuðla að rétttlátum aðgang að vatni. Ekki aðeins ríkisstjórnir heldur einnig almannasamtök, einstaklingar og fyrirtæki ættu að taka höndum saman.  
 
Við erum rétt að vakna til vitundar um þetta. En það eru góð teikn á lofti, einkum í einkageiranum. Fyrirtæki hafa oft verið blórabögglar. Reykjarkóf frá orkufyrirtækjum mengar andrúmsloftið, úrgangur verskmiðja mengar árnar okkar. En þetta er að breytast.   Fyrirtæki eru í sívaxandi mæli að verða lausn vandans í stað þess að vera rót hans.   
 
Fyrr í þessum mánuði hittust félagar í félagsskap Sameinuðu þjóðanna Global Compact, sem eru stærstu frjálsu félagasamtök fyrirtækja í einkageiranum á fundi í New York til að ræða vatn. Velta fyrirtækjanna sem þar komu saman nemur hálfri billjón (milljónum milljóna) Bandaríkjadala og þau starfa í 200 löndum.   
 
Aðalumræðuefnið: að hverfa frá hugsunarlausri ofnotkun og taka upp sjálfbæra neyslu. Þetta hefur í för með sér að þau skuldbinda sig til að starfa með Sameinuðu þjóðunum, ríkisstjórnum og almannasamtökum að því að vernda sífellt minnkandi auðlind og tryggja að íbúarnir njóti hennar.
 
Hvert ferðalag er myndað af mörgum litlum skrefum og þau voru einnig rædd. Stórt fyrirtæki í vefnaðariðnaði skýrði frá því hvernig það vinnur með sveitarstjórnum og bændum að því að spara vatn í ræktun baðmulls. Gallabuxnaframleiðandi ætlar að breyta merkimiðum og prenta hvatnigu um að þvo upp úr köldu vatni og hengja upp til þerris í því skyni að spara vatn.  
 
Dropi í hafið? Já, vissulega, en ég sé fyrir mér að gárurnar geti orðið að stórri öldu.  
 
Höfundur er framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.