Velferð fólks og skóga fer saman

0
779
World wildlife day

Nærri 350 miljónir manna í heiminum sækja lífsviðurværi sitt til skóga. Þetta fólk á allt sitt undir því að skógarnir fái að þrífast tl þess að geta sótt þangað fæðu, skjól, orku og lyf. Um 28% lands á jörðinni nýtur verndar samfélaga frumbyggja sem einnig hafa af þeim efnahagsleg-, menningarlega og heilsufarsleg afnot.

3.mars ár hvert er haldið upp á Alþjóðlegan dag ríkis náttúrunnar.  Þá er kastljósinu beint að hlutverki skóga, dýralífs og náttúrulegra vistkerfa í lífsviðurværis staðbundinna samfélaga.

Ríki náttúrunnar
Mynd: Evan Wise / Unsplash

Þýðingarmikið er að viðhalda fjölbreytni lífríkisins og hlúa að dýralífi. Hvort tveggja vegur einnig þungt í velferð fólks og stuðlar á ýmsan hátt að sjálfbærri þróun. Villt dýr og jurtir leika mikilvægt hlutverk í vísindum, menningu og erfðafræði. Eitt markmiðið með Alþjóðlegum degi ríkis náttúrunnar  er að berjast gegn minnkandi fjölbreytni lífríkisins sem nú þegar hefur haft verulega alvarlegar afleiðingar í för með sér hvort heldur sem er á umhverfið eða félagsleg og efnahagsleg.

Sjúkdómsvaldar færast nær

Auk loftslagsbreytinga og glataðrar líffræðilegrar fjölbreytni, er COVID-19 þungt lóð á vogarskálarnar þegar rætt er um að vernda skóga. Heimsfaraldurinn er skýrt dæmi um að þegar gengið er á ríki náttúrunnar, færast sjúkdómsvaldarnir nær samfélaginu.

Alþjóðlegur dagur ríkis náttúrunnar snertir fjögur mismunandi markmið innan Heimsmarkmiðanna um sjálfbæra þróun. Þar á meðal eru markmiðin um upprætingu fátæktar og ábyrga neyslu. Einnig má nefna markmið númer fimmtán um líf á landi. Þýðingarmikið er að vernda líf á landi því jurtir og dýr skipta miklu máli fyrir hreint loft og frævun og þar af leiðandi uppskeru matvæla.

Núverandi skóglendi skiptir sköpum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og sama máli gegnir um endurskógrækt. Í nýlegri skýrslu frá 2019 segir að allt að ein milljón dýrategunda sé í útrýmingarhættu.

Skjaldborg um náttúruna

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað minnt á þörfina á að slá skjaldborg um náttúruna.

„Höfum hugfast að það er skylda okkar að vernda og nýta á sjálfbæran hátt hið fjölbreytilega líf á jörðinni. Við skulum vinna að því að samskipti okkar við náttúruna verði umhyggjusamari, gáfulegri og sjálfbærari.“

Náttúra
Mynd: Roger Darnell/Unsplash

Sameinuðu þjóðirnar hvetja fólk um allan heim til að minnast Alþjóðlegs dags ríkis náttúrunnar með þvi að nota myllumerkin #WorldWildlifeDay #WWD2021 #ForestPeoplePlanet.

Alþjóðlegi sjóðurinn í þágu velferðar dýra hefur tekið höndum saman við stofnun Alþjóðasamningsins um viðskipti með villt dýr og plöntur (CITES) og Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNDP) um listasamkeppni umgmenna. Hefur hún það markmið að breiða út boðskap náttúruverndar.

Viðburður verður á netinu þar sem tilkynntur verður sigurvegari keppninnar og má fylgjast með hér.

Þá má benda á að kvikmyndum um skógar-þema verður streymt á netinu á Alþjóðlega daginn 3.mars.

Náttúran er í brennidepli á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í mars. Auk Alþjóðlega dags ríkis náttúrunnar má minna á Alþjóðlegan dag skóga 21.mars og Alþjóðlegan dag ferskvatns 22.mars.