Verndum flóttamenn fyrir mansali

0
597
trafficking protest

trafficking protest

30.júlí 2016. Mansal snertir hvert einasta ríki heims, annað hvort vegna þess að það er upphafsland eða viðtakandi fólks sem má þola slíkt hlutskipti.

Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir í ávarpi í tilefni af Alþjóðadegi til höfuðs mansali að glæpamenn þrífist á neyð þeirra sem minnst mega sín.

Mansal tengist í sívaxandi mæli farandfólki og hinni miklu bylgju farandfólks og flóttamanna sem við höfum orðið vitni að undanfarin ár. Átök og náttúruhamfarir hafa reynst vatn á myllu glæpamanna sem stunda mansal.

„Til þess að binda á þennan ómannúðlega verknað, verðum við að gera meira til þess að vernda farandfólk og flóttamenn, sérstaklega ungt fólk, konur og börn fyrir þeim sem vilja misnota þrá þeirra eftir betri og öruggari framtíð.”

Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) telur að 21 milljón manna sé þvinguð til að stunda þrælkunarvinnu. Ekki er hægt að fullyrða að allt þetta fólks sé fórnarlömb mansals, en talan gefur hugmynd um stærð vandans.

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 2010 Alheimsáætlun um baráttuna gegn mansali, en þar voru ríkisstjórnir hvattar til þess að stilla saman strengi. Þar er líka gert ráð fyrir að tekið sé tillit til mansala í áætlunum Sameinuðu þjóðanna á mörgum öðrum sviðum. Þá var stofnaður alþjóðlegur sjóður til stuðnings fórnarlömbum mansals, einkum konum og börnum.