Verslið með höfðinu

0
482

WWF-Shopping-CArt250 1

7.júní 2013. Hefur það einhvern tíma hvarflað að ykkur að þið sjálf getið á einfaldan og auðveldan hátt lækkað matarreikninginn hjá ykkur sjálfum og á sama tíma lagt fram ykkar skerf til að bæta hag sveltandi fólks í fátækum ríkjum og lagt baráttunni gegn loftslagsbreytingum lið?

Nei, það er ekki verið að biðja ykkur um að leggja fé inn á bankareikning og það sem meira er: þið þurfið hvorki að fara á námskeið, lesa fimm hundruð síðna doðrant né leggja á ykkur líkamlegt erfiði. Það eina sem þið þurfið að gera er að HUGSA næst þegar þið farið út í búð og eldið í matinn.

Lítum fyrst á staðreyndirnar: Talið er að í heiminum í dag fari 30 prósent allra matvæla í súginn. 300 milljónum tonna neysluhæfra matvæla í þróuðum ríkjum er hent en það er álíka mikið og þarf til að brauðfæða þær 900 milljónir manna sem líða hungur í heiminum. Álíka miklum mat er hent í þróuðum ríkjum og er framleiddur á jafnlöngum tíma í allri Afríku sunnan Sahara.

Nú er það ekki svo að við getum tekið það sem fer til spillis hjá okkur og sent það með pósti til sveltandi fólks í Afríku. En við getum samt haft ótrúlega mikil áhrif.

Lítum aðeins á samhengi hlutanna. Spurn eftir matvælum í heiminum hefur aukist með meiri velmegun og fólksfjölgun og er svo mikil að verð á ýmsum tegundum matvæla hefur hækkað upp úr öllu valdi. Þetta hefur í för með sér að fátækt fólk í þróunarlöndum hefur ekki efni á því að brauðfæða fjölskyldur sínar, meðal annars vegna þess að matur er fluttur frá heimalöndunum og þangað sem eftirspurnin er mest og verðið er hæst. Og þar er maturinn ekki einu sinni borðaður heldur fer þriðjungur til spillis.

Ekki nóg með það heldur er matvælaframleiðsla (sem á stundum kemur engum til góða), einna stærsti valdur losunar koltvísýrings sem veldur loftslagsbreytingum. 14 prósent allrar losunar koltvísýrings má rekja til sóunar matvæla og því má færa má rök fyrir því að með því að minnka sóun matvæla leggjum við lóð á vogarskálarnar í baráttunni við loftslagsbreytingar.

Fáa þekki ég á Íslandi sem ekki kvarta yfir háu matarverði og staðreyndin er sú að mikill hluti þeirra matvæla sem við leggjum okkur til munns er innfluttur. Við getum slegið tvær flugur í einu höggi og jafnvel fleiri með því að hafa nokkur heilræði í huga:

 

  • Lækkið hitastigið í ísskápnum. Með því að lækka hitann úr 8 gráðum í fjórar dugar mjólkurlítri í tvær vikur í stað einnar.
  •  Kaupið aðeins það sem þið þurfið og nýtið það sem þið kaupið.
  •  Skipuleggið máltíðirnar, búið til innkaupalista og standið við hann.
  • Verslið með höfðinu en ekki maganum.
  • Notið það sem til er, áður en þið verslið á nýjan leik.
  • Kynnið ykkur muninn á „síðasta söludegi“ og „eitrað eftir…“.
  • Eldið aðeins það magn sem þið getið borðað.
  • Tæmið matarpakkningarnar alveg.
  • Deilið mat með nágrönnunum.

En það er til lítils ef fólk veit ekki af þessu. Þess vegna leitum við hjá Sameinuðu þjóðunum til skapandi fólks, jafnt atvinnumanna sem skapandi einstaklinga um bestu auglýsinguna sem hönnuð er í því skyni að vekja athygli á þessu máli. Nánari upplýsingar um keppnina má sjá hér: www.thinkeatsave.org/nordiccompetition og www.unric.org http://www.unric.org/is/ (á íslensku).

(Greinin birtist í DV miðvikudaginn 5. júní.)