Við verðum að venja okkur af kolefnafíkninni

0
417

 Eftirfarandi er ávarp framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á Alþjóðlega umhverfisdaginn 5. júní: 

Ban Ki-moon ávarpar fund Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ (FAO) í Róm.

Fíkn er hræðilegur hlutur. Hún heltekur okkur og slær okkur blindu með þeim afleiðingum að við sjáum ekki afleiðingar gerða okkar. Heimur okkar stríðir við hættulega fíkn í jarðefnaeldsneyti. 

Kol og olía lágu til grundvallar iðnþróun þróaðra ríkja heimsins. Þróunarríki feta nú sömu braut hröðum skrefum í viðleitni sinni til að jafna lífskjörin. Í minnst þróuðu ríkjunum eru jafnvel notaðir enn minna sjálfbærar orkulindir á borð við brúnkol – sem er eini kostur hinna fátækustu.

Gróðurhúsalofttegundir hafa safnast fyrir í andrúmsloftinu vegna þess hve við höfum verið háð orku unnum úr jarðefnum. Á síðasta ári rak Nóbelsverðlaunahafinn, Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna (IPCC) síðasta naglann í líkkistu efasemdamanna um hlýnun jarðar. Við vitum að loftslagsbreytingar eru staðreynd og við vitum líka að orsökin er koltvíseringur og aðrar gróðurhúsalofttegundir sem myndast af mannavöldum. 

Við brennum ekki aðeins kolefni í formi jarðefnaeldsneytis. Í öllum regnskógum heimsins er gengið á verðmætt skóglendi til að afla timburs og búa til pappír og rýma fyrir beitarlandi og akurlendi. Skógar víkja í sívaxandi mæli vegna ræktunar í þágu lífræns eldsneytis. Þetta hefur  ekki aðeins í för með sér mikinn útblástur koltvíserings. Þegar trén hverfa, er dregið úr endurvinnslu koltvíserings í andrúmsloftinu og þar með er enn ýtt undir loftslagsbreytingar.

Hlýnun jarðar hefur miklar umvherfislegar- efnahagslegar og pólitískar afleiðingar. Vistkerfi frá hálendi til sjávar, frá heimskautum til regnskóga undirgangast miklar og skjótar breytingar. Flóð ógna borgum á miklu láglendi, frjósamt ræktarland verður að eyðimörk og veðurfar verður sífellt óútreiknanlegra. 

Þetta mun bitna á öllum jarðarbúum. Veðurfarslegar hamfarir og verðhækkanir á nauðsynjum munu bitna harðast á hinum fátækustu, en jafnvel auðugustu þjóðirnar verða að horfast í augu við efnahagslegan samdrátt og átök um minnkandi auðlindir. Allt ber að sama brunnni: ef við ætlum að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga, uppræta fátækt og efla efnahagslegan og pólitískan stöðugleika verðum við að venja okkur af kolefnafíkninni. Þetta er þema Alþjóðlega umhverfisdagsins 2008: “Úr viðjum vanans: Í átt til kolefnasnauðs efnahags.” Þessi fíkn er viðurkennd og sýnt fram á hvert við ættum að stefna.  

Oft þurfum við á kreppu að halda til að horfast í augu við raunveruleikann. Loftslagskreppan hefur sýnt fyrirtækjum og ríkjum fram á að fé sparast og efnahagslíf eflist við það að ráðast gegn hlýnun jarðar. Kostnaðurinn við hlýnun jarðar verður trauðla reiknaður en það gjald sem við greiðum til að berjast gegn henni er kannski minna en við höldum. Sumir telja að kostnaðurinn nemi innan við eitt prósent af landsframleiðslu heimsins sem er sannarlega lágt verð fyrir baráttu í þágu alls heimsins. 

Enn betri eru þær fréttir að tæknin til að gera notkun jarðefnaeldsneyta hreinlegri og skilvirkari er þegar fyrir hendi eða er í þróun. Sama máli gegnir um endurnýjanlega sólar- vind- og sjávarfallaorku. Í einkageiranum keppast menn við að hagnast á stórkostlegu viðskiptatækifæri.

Þjóðir, borgir, samtök og fyrirtæki um allan heim leita nú nýrra grænna leiða. Ég hef gefið fyrirskipanir um að endurnýjun höfðustöðva okkar í New York uppfylli ströngustu umhverfiskröfur. Ég hef líka beðið oddvita allra áætlana, sjóða og sérhæfðra stofnana Sameinuðu þjóðanna að stefna að kolefnasnauðri starfsemi.

Fyrr á þessu ári ýtti Umhverfisáætlunin (UNEP) úr vör kolefnasnauðu tenglsaneti CN Net til að efla þessa þróun. Stofnfélagarnir sem eru jafnt ríki, borgir og fyrirtæki, eru frumherjar hreyfingar sem ég tel að muni í sívaxandi mæli móta orðræðuna í umhverfis- stjórn og efnahagsmálum og ákvarðanatöku á næstu áratugum. 

Skilaboðin á Alþjóðlega umhverfisdeginum 2008 eru þau að við erum öll hluti af lausninni. Hvort heldur sem er einstaklingar, samtök, fyrirtæki eða ríkisstjórnir, geta stuðlað að því að minnka kolefnanotkun. Við verðum öll að leggjast á eitt.