Viðbrögð við fellibylnum í Myanmar “óásættanlega hæg” segir Ban Ki-moon

0
397

Ban Ki-moon framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lét í dag í ljós “mikil vonbrigði” með hægagang í hjálparstarfi í Myanmar í kjölfar fellibylsins í síðustu viku. Skoraði framkvæmdastjórinn á ríkisstjórn landsins að gera allt sem í hennar valdi stæði til að afleiðingar náttúruhamfaranna yrðu ekki enn alvarlegri.  

Ban Ki-moon á blaðamannafundi í New York 12. maí.

“Ég vil láta í ljós þungar áhyggjur mínar og mikil vonbrigði yfir óáættanlegum hægagangi við að bregðast við þessum alvarlega vanda,” sagði Ban á blaðamannafundi í New York.  “Ef meiri hjálpargögn berast ekki, er hætta á útbreiðslu farsótta sem gætu verið enn mannskæðari en sjálfur fellibylurinn. Ég hvet því ríkisstjórn Burma ákaft til að reyna fyrst og fremst að bjarga mannslífum.” 
Alþjóðlegar hjálparstofnanir telja að um það bil 1.5 milljón manna sé í hættu í kjölfar fellibylsins Nargis sem reið yfir Myanmar 2. maí. Ríkisstjórnin telur að þrjátíu og tvö þúsund hafi látist og þrjátíu og fjögurra þúsunda sé saknað. 
Sameinuðu þjóðirnar hvöttu ríkisstjórnina til að greiða fyrir komu hjálparstarfsmanna til landsins og sögðu að hjálpargögn væru föst á stærsta flugvelli landsins. Ban segir það þó góðs viti að ríkisstjórnin hafi liðkað fyrir komu hjálparstarfsmanna að nokkru leyti. Hann sagði að margir flugvélafarmar af hjálpargögnum hefðu borist um helgina og í gær en bætti við: “betur má ef duga skal.”  
Hann sagði að Sameinuðu þjóðirnar og hjálparstofnanir “væru í stakk búnar” að takast á við neyðarástandið en hins vegar væri ekki nægilega margt hjálparstarfsfólk á staðnum og ríkisstjórnin hefði hafnað vegabréfsáritunum handa liðsauka. 
Framkvæmdastjórinn sagði að Sameinuðu þjóðirnar hefðu náð til um þriðjungs þeirra sem ættu um sárt að binda eða 270 þúsund manns. Hann sagði að Matvælaáætlun SÞ teldi að þær matvælasendingar sem þegar hefði verið leyft að senda til landsins væri um tíundi hluti þess sem nauðsynlegt væri. Hrisgrjónabirgðir landsmanna sjálfra væru nærri því á þrotum.
Ban sagðist hafa reynt þrotlaust að ná símasambandi við Than Shwe, oddvita herforingjastjórnarinnar undanfarna daga en án árangurs.  

Sjá nánar: http://www.un.org/apps/news/story.asp?NewsID=26634&Cr=myanmar&Cr1=