Við getum öll gert eitthvað

0
500
Darfur

Darfur
24. október 2012. Ávarp framkvæmdastjórans á Degi Sameinuðu þjóðanna 2012

Við lifum á tímum djúpstæðs óróa, umskipta og umbreytinga. Óöryggi, ójöfnuður og umburðarleysi fara vaxandi. Reynt er á þolrif stofnana jafnt innan ríkja sem og á alþjóðavettvangi. Þegar svo mikið er í veði verða Sameinuðu þjóðirnar að halda í við þróunina á öllum sviðum, hvort heldur sem er við að stilla til friðar, efla þróun, mannréttindi, réttaröryggi, og valdeflingu kvenna og ungs fólks.

Markverðar framfarir hafa orðið á mörgum sviðum. Sárafátækt hefur verið helminguð frá því árið 2000. Í mörgum ríkjum er þróun í átt til lýðræðis. Ánægjuleg teikn eru á lofti um hagvöxt víða í þróunarríkjum.

Nú er lag á að efla sameiginlegan metnað okkar. Árið 2015 nálgast en fyrir þann tíma skal Þúsaldarmarkmiðunum um þróun hafa verið náð. Við verðum því að tvíefla viðleitni okkar til að ná markmiðunum sem öll miða að því að bjarga mannslífum. Við verðum líka að undirbúa í senn djarfar og raunsæjar áætlanir í þróunarmálum eftir 2015. Og við við verðum enn sem fyrr að skera upp herör gegn umburðarleysi og koma fólki til aðstoðar sem orðið hefur fyrir barðinu á átökum og koma á varanlegum friði.

Sameinuðu þjóðirnar eru ekki eingöngu fundarstaður stjórnarerindreka. Sameinuðu þjóðirnar bregða sér í líki friðargæsluliða sem afvopnar vígamenn, heilbrigðisstarfsmanns sem dreifir lyfjum; björgunarsveitar sem liðsinnir flóttamönnum, mannréttindasérfræðings sem stuðlar að réttlæti.
Við treystum á stuðning óteljandi vina og stuðningsmanna í starfi okkar um allan heim. Frjáls félagasamtök, vísindamenn, fræðimenn, trúarleiðtogar, forkólfar í atvinnulífinu og áhugasamir einstaklingar leggja okkur lið til þess að ná árangri. Enginn einn leiðtogi, eitt ríki eða ein stofnun getur gert allt. En við getum öll, hvert fyrir sig, gert eitthvað.

Á degi Sameinuðu þjóðanna skulum við ítreka vilja okkar sem einstaklinga og sameiginlegan ásetning okkar til að hrinda í framkvæmd hugsjónum þeim sem settar eru fram í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna og byggja betri heim fyrir okkur öll.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Mynd: Konur sem taka þátt í verkefni á vegum Matvælaáætlunar SÞ (WFP) í Darfur. SÞ/Albert González Farran