Við getum öll hjálpað Gasa

0
448

UNRWAgrein

6.ágúst 2014. Afar hógværar vonir hafa vaknað um að nú sjái fyrir enda á blóðsúthellingum á Gasa. 72 tíma vopnahlé tók gildi í gær.

En friður er svo sannarlega sýnd veiði en ekki gefin. 

Frá upphafi átakanna 7.júlí hafa 1,814 Palestínumenn verið drepnir, en um 85% óbreyttir borgarar. Þar af eru rúmlega 400 börn og 200 konur.  66 Ísraelar hafa látist, þar af tveir óbreyttir borgarar og einn útlendingur. En þegar og ef byssurnar þagna, blasir tröllaukið verkefni við Gasa.

270 þúsund manns hafa leitað skjóls í skólum UNRWA, stofnunar Sameinuðu þjóðanna sem sér um palestínska flóttamenn. Talið er að stærstur hluti þess fólks muni dvelja þar áfram því það hafi ekki í önnur hús að venda eftir að heimili þeirra hafa verið eyðilögð.

Um 10 þúsund Palestínumenn hafa særst í fjögurra vika hörðum átökum. Heilsugæsla Gasa er að hruni komin. Þriðjungur sjúkrahúsa, 14 heilsugæslustöðvar og 29 sjúkrabílar hafa skemmst.

„Við stöndum andspænis heilsufars- og mannúðarvá,” segir James W. Rawley, samræmandi mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum á herteknu svæðunum. „Stöðva verður átökin nú þegar.”

Útfrá síðustu atburðum hefur UNRWA gefið út ákall um fjárstuðning til að stemma stigu við neyðarástandinu vegna þeirra 250 þúsunda sem hrakist hafa frá heimilum sínum og hafast við í skólum samtakanna. Er gert ráð fyrir að ástandið vari í 8 vikur. Þörf er á 188 milljónum Bandaríkjadala. Hluta þess fjár verður varið til að stíga fyrstu skref í endurreisnarstarfi, þar á meðal að gera við skóla sem hafa skemmst í árásum Ísraelsmanna þótt þeir séu húsaskjól flóttafólks.

UNRWA sem stundum er kölluð Palestínuhjálpin, er nær eingöngu kostuð af frjálsum framlögum ríkja og alþjóðasamtaka. Frá 1949 hefur UNRWA séð 5 milljónum Palestínumanna fyrir menntun, heilsugæslu, neyðarhjálp, félagslegri aðstoð, smálán og viðhald búða.

UNRWA hvetur einstaklinga til að láta fé af hendi rakna. Sem dæmi um hvað hægt er að gera fyrir lágar fjárhæðir, má nefna:

  • Fyrir $ 30 eða 3450 íslenskar krónur má sjá barni fyrir áfallahjálp
  • Fyrir $ 40 eða 4600 íslenskar krónur má fæða eina manneskju í viku
  • Fyrir $ 149 eða um 17 þúsund íslenskar krónur er hægt að útvega fjölskyldu, teppi, dýnu og mottu.
  • Fyrir $ 1080 eða um 124 þúsund íslenskar krónur má fæða fjölskyldu í mánuð.

Sjá nánar hvernig hægt er að koma fénu áleiðis hér.