Voðaverk í Burundi fordæmd

0
502
Burundi

Burundi

27.apríl 2016. Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur fordæmt sívaxandi fjölda morðtilræða við háttsetta embættismenn í Burundi og hvatt til að þau verði rannökuð ítarlega.

Hershöfðingjnn Athanase Kararuza og eiginkona hans voru myrt á mánudag og reynt að ráða mannréttinda og félagsmálaráðherrann Martin Nivyabandi,af dögum á sunnudag. 

„Ég fordæmi þessar árásir harðlega,“ segir Zeid Ra’ad, mannréttindastjóri í fréttatilkynningu. „Það verður að rannsaka árásirnar gaumgæfilega og draga tilræðismennina fyrir dóm. 31 hefur verið drepinn það sem af er aprílmánuði, en 9 mánuðinn á undan. Langflestir voru myrtir af óþekktum vopnuðum mönnum. Ég óttast að þessar morðtilraunir muni virka sem olía á eld í vítahring ofbeldisverka í Burundi.“

Mannréttindastjórinn hvatti alla aðila til þess að grípa tækifærið í viðræðum um ástandið í Burundi sem hefjast í Arusha á næstunni á vegum ríkja í austurhluta Afríku. Brýnt er að mati hans að finna varanlega lausn á deilunum.

Ár er liðið frá því upp úr sauð í landinu. Að mati Sameinuðu þjóðanna hafa 400 látist og rúmlega 260 þúsund manns flúið land.

Mynd: Ungur drengur frá Burundi í Nyarugusu flóttamannabúðunum í Tansaníu. UNICEF/Rob Beechey