Votlendi: nýru jarðarinnar

0
396
Votlendi
Lille Vildmose

Alþjóðlegur dagur votlendis. Votlendi þekur aðeins sex af hundraði yfirborðs jarðar, þar búa eða fjöðlga sér 40% allra jurta og dýrategunda. Á Norðurlöndum er hlutfall votlendis töluvert hærra. 2. Febrúar er Alþjóðlegur dagur votlendis.

Um 35% votlendis jarðar hefur horfið á undanförnum fimmtíu árum. Votlendi hverfur þrisvar sinnum hraðar en skógar.

Votlendi
Mynd: UNEP

Votlendi tengir saman vatn og land. Rennandi vatn, næringarefni og sólarorka tengjast og mynda einstakt vistkerfi.

Samkvæmt breiðri skilgreiningu flokkast öll vötn og ár, mýrar og móar, neðanjarðar vatnslög, fenjar, fenjaviður, árósar og önnur strandsvæði, kóralrif og manngerðar tjarnir, hrísgrjónaakrar og vatnsból, svo eitthvað sé nefnt, til votlendis.

Þriðjungur votlendis tapast

Votlendi hýsir rúmlega 30% alls kolefnis á landi. Þetta kolefni myndi ella stuðla að hlýnun jarðar. Votlendi drekkur í sig koltvísýring og stuðlar að því að draga úr hlýnun og mengun. Af þessum sökum er stundum talað um votlendi sem “nýru jarðarinnar.” Mólendi eitt út af fyrir sig hýsir tvisvar sinnum meira kolefni en allir skógar heims samanlagt. Og að sama skapi losar votlendi gríðarlegt magn kolefnis þegar það er þurrkað upp og eyðilagt.

Votlendi
Votlendi í Svíþjóð: Mynd: Embla Munk Rynkebjerg/Unsplash

Síðastliðna hálfa öld hefur rúmlega þriðjungur votlendis heimsins glatast. Aukin búseta og aukning landbúnaðar eru stærstu sökudólgarnir en ekki má gleyma mengun, ofveiði, ágengum tegundum og loftslagsbreytingum. Í sumum heimshlutum er hlutfallið enn hærra. 90% votlendis í Danmörku hvarf á árunum 1900-1990. 65% náttúrulegs votlendis í Svíþjóð hefur einnig tapast.

Á hinn bóginn hefur meira votlendi verið friðað í Norður-Evrópu en á öðrum meginlöndum. Mólendi er nánast alls staðar í Evrópu, en sérstaklega útbreitt í norðvesturhluta álfunnar, Noðrurlöndum og í Austur-Evrópu, alls svæði sem þekur 350.000 km2. Fjórðungur alls lands í Finnlandi og Svíþjóð telst til votlendis.

 Votlendið snýr aftur

Votlendi
Mýri í sænska Lapplandi. Mynd: Convention on Wetlands

Matti Ermold, sérfræðingur hjá sænsku umhverfisstofnuninni segir að votlendi á Norðurlöndum sé með því mesta í heimi, sem hlutfall af heildarlandsvæði. Önnur hlutfallslega stór votlendis-svæði eru Rússland, Norður-Ameríka, Kína, Indland, Bangladesh og nokkur Afríkuríki, svo sem Tansanía. Votlendi Norðurlanda (Skandinavíu og Finnlands) urðu til eftir síðustu ísöld eða fyrir rúmlega 10 þúsund árum.

„Rakt loftslag og lágt hitastig hefur orðið til þess að dauðir jurtahlutar hafa ekki brotnað niður og safnast fyrir. Af þeim sökum er stundum tíu metra þykkt lag af mó, sem er jú myndaður af dauðum hlutum plantna,“ útskýrir Ermold.

Votlendi endurnýjar sig með tímanum með þróun úr einu náttúrulega ástandi í annað. Þetta gerist á afar löngum tíma, fleiri hundruð eða þúsunda ára. Horfin vötn geta orðið til að nýju og myndað votlendi, sem geta svo um síðar orðið að skógum. Skilyrðið er að þróunin sé ekki stöðvuð.

Votlendi. Pyhä-Luosto þjóðgarðurinn í Finnlandi.
Pyhä-Luosto þjóðgarðurinn í Finnlandi. Mynd:Datingscout/Unsplash

Maðurinn hefur gripið inn í slíka þróun, sem annarst tæki firna langan tíma. Skurðar eru grafnir, vatnsborð vatna lækkað, farvegum áa breytt. Ekki má gleyma loftslagsbreytingum, losun nítrats og fleira, sem stuðla að lækkun vatnsyfirborðs votlendis og breytingum á vatnsflæði.

„Truflanir á borð við bruna, flóð og storma hafa stundum hægt á þróun eða núllstillt hana,“ segir matti Ermold og bendir á að sumt votlendi Norðurlanda hafi áður verið vötn.

Endursköpun er í forgangi

Eitt af undirmarkmiðum Heimsmarkmiðs Sameinuðu þjóðanna númer sex um aðgang að vatni, felur í sér að öll ríki heims hafa skuldbundið sig til að vernda og endurreisa votlendi fyrir 2030. Matti Ermold leggur áherslu á að skilningur á virkni og ábata af votlendi hafi aukist að undanförnu. Mörg ríki hafa séð ástæðu til að endurskapa votlendi til þess að geta tekist á sama tíma við alls kyns loftslags- og umhverfisáskoranir.

Votlendi
Endurnýjun votlendis í Svíþjóð.
Mynd: Matti Ermold, Naturvårdsverket

„Það er liklegt að við munum endurskapa meira votlendi í framtíðinni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, til að aðlagast flóðum og þurrkum og til að hreinsa vatn af alls kyns efnum,“ segir Ermold. „Hækkun hitastigs og aukin úrkoma af völdum loftslagsbreytinga mun hafa áhrif á votlendi í framtíðinni, því þau eru mjög háð virkri vatns-hringrás.“

2.febrúar

Alþjóðlegur dagur votlendis er haldinn 2 febrúar til að auka vitund almennings um votlendi. Hann markar einnig afmæli Sáttmála um votlendi sem var samþykktur sem alþjóðlegur samningur árið 1971.