WHO: kostir AstraZeneca meiri en áhætta

0
746
Alþjóðlegur dagur kvenna og stúlkna í vísindum
Mynd: National Cancer Institute- Unsplash

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) segir í yfirlýsingu að „á þessari stundu…vega kostir AstraZeneca þyngra en áhætta. Því er mælt með því að bólusetningar haldi áfram.“

Í yfirlýsingunni segir WHO að í umfangsmiklum bólusetningarherferðum sé það regla að ríki láti vita af hugsanlegum skaðlegum áhrifum sem komi fram eftir bólusetningar.

„Þetta þýðir ekki endilega að skaðlegu áhrifin tengist bólusetningunni sjálfri, en það er rétt að kanna það. Þetta sýnir einnig að eftirlitskerfi virkar og að stjórntæki séu til staðar.”

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin er stöðugt í sambandi við heilbrigðisyfirvöld í Evrópuríkjum og eftirlitsaðila um allan heim til að fylgjast með öryggi bólusetninga við COVID-19. Alþjóðleg nefnd WHO um öryggi í bólusetningum (Global Advisory Committee on Vaccine Safety) metur af gaumgæfni nýjustu gögn um öryggi AstraZeneca bóluefnisins. WHO mun gera niðurstöður hennar heyrinkunnar um leið og þær liggja fyrir.

Sum Evrópuríki hafa stöðvað notkun AstraZeneca bóluefnis við COVID-19 um stundarsakir. Það var gert eftir að fréttir bárust af sjaldgæfri blóðstorknunar-röskun í fólki sem hafði verið bólusett. Í öðrum ríkjum sem höfðu aðgang að sömu upplýsingum hefur verið ákveðið að halda áfram bólusetningum.

WHO bendir á að bólusetning við COVID-19 dregur ekki úr veikindum eða dauðsföllum af öðrum orsökum. Blóðsegarek í bláæðum er þriðji algengasti æða- og hjartasjúkdómur í heimi.