100 þúsund börn gætu orðið vannæringu að bráð

0
559

Óttast er að meir en 100 þúsund börn í Tigray-héraði í Eþíópíu muni þjást af lífshættulegri vannæringu á næstu tólf mánuðum, að sögn UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Þetta er tíföld aukning miðað við árlegt meðaltal.

Skýrt var frá þessu á sama tíma og UNICEF tilkynnti að liðsmenn stofnunarinnar hefðu náð til svæða innan Tigray-héraðs sem hefðu verið utan seilingar. Ástæðan eru átök stjórnarhersveita og liðsmanna TPLF eða þjóðfrelsisfylkingar Tígra.

 Marixie Mercado talskona UNICEF sagði að versta martröð hálparstarfsmanna virtist ætla að verða að veruleika. Talið er að 47% barnshafandi kvenna og kvenna með barn á brjósti væru alvarlega vannærðar. Óttast er að þetta hafi í för með sér ýmsa meðgöngukvilla og aukna hættu á dauða við fæðingu. Líkur eru á að börn fæðist of létt og eigi þá á hættu að veikjast af ýmsum sjúkdómum eða jafnvel deyja.

Óhindraður aðgangur nauðsynlegur

„Við þurfum óhindraðan aðgang að héraðinu til þess að geta veitt börnum og konum þá aðstoð sem þörf krefur,“ sagði Mercado.

Martin Griffiths yfirmaður hjálparsveita Sameinuðu þjóðanna og Samantha Power yfirmaður hjálparstofnunar Bandaríkjanna munu eiga fund með yfirvöldum í Eþíópíu í þessari viku til að freista þess að opnað veri fyrir flutninga hjálpargagna til héraðsins.

Sjá hér um starf UNICEF í Tigray-héraði í Eþíópíu.