80% vilja öflugri loftslagsaðgerðir ríkisstjórna sinna

0
13
Loftslagsmótmæli á Norðurlöndum.
Loftslagsmótmæli á Norðurlöndum. Mynd: Iris Dager/norden.org

 Loftslagsbreytingar. Meiriháttar alþjóðleg skoðanakönnun bendir til yfirgnæfandi meirihluta um allan heim við metnaðarfyllri loftslagsaðgerðir.  

Í könnunni, sem nefnist Loftslagsatkvæðagreiðsla fólksins 2024 (Peoples’ Climate Vote 2024), kemur fram að 80% eða fjórir af hverjum fimm vilji að ríkisstjórnir grípi til öflugri aðgerða til að stamma stigu við loftslagsvánni.

Enn fleiri eða 86% vilja að ríkisstjórnir þeirra leggi ágreining á alþjóðavettvangi til hliðar og taki höndum saman gegn loftslagskreppunni. Hinn mikli einhugur er ekki síst athyglisverður sökum þess hve mikil sundrung ríkir í heiminum, samfara auknum átökum og uppgangi þjóðernishyggju.

Loftslagsatkvæðagreiðsla fólksins 2024.
Loftslagsatkvæðagreiðsla fólksins 2024.

Niðurstaðan skýr

Rúmlega 75 þúsund manns, sem tala 87 mismunandi tungumál í 77 ríkjum voru spurð 15 spurninga um loftslagsbreytingar. Könnunin var gerð að frumkvæði Þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNDP). 87% heimsbyggðarinnar búa í ríkjunum 77. Svíþjóð, eitt Norðurlanda var í þeim hópi.

„Niðurstaða Loftslagsatkvæðagreiðslu fólksins er skýr og skorinorð,“ segir Achim Steiner forstjóri UNDP. „Heimsbyggðin vill að leiðtogar leggi deilur sínar til hliðar. Þeir grípi tafarlaust til róttækra aðgerða til að berjast gegn loftslagsbreytingum.“

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur um langt skeið talað fyrir róttækum aðgerðum í loftslagsmálum.

Sjá nánar hér, könnunina í heild hér.