Að binda enda á blæðingaskömm snýst um mannréttindi

0
272

Blæðingahreinlæti og heilbrigði eru mikilvægir þættir í kynferðis- og frjósemisheilsu kvenna og stúlkna um allan heim. Ef þær hafa ekki aðgang að túrvörum eiga þær á hættu að fá sýkingar og sjúkdóma. Föstudagurinn 28.maí er Alþjóðlegi túrdagurinn.

Aðgangur að túrvörum er mikilvægur til að tryggja velferð og jöfn tækifæri fyrir konur og stúlkur. Þetta snýst um mannréttindi.

Að meðaltali er kona á blæðingum í fimm daga af hverjum 28. Af þessum sökum varð 28. dagur maí mánaðar fyrir valinu sem Alþjóðlegi túrdagurinn. Íslenska heitið á „Menstrual Hygiene Day” kemur frá Landsnefnd UN Women á Íslandi. Markmiðið með deginum er að vinna gegn blæðingaskömm. Jafnframt að fræða jafnt karla sem konur um blæðingar og mikilvægi blæðingahreinlætis.

Víða um heim hvílir bannhelgi á blæðingum. Sums staðar eru konur aðskildar frá öðrum á meðan á blæðingum stendur. Sumar stúlkur missa úr skóla. Margar konur og stúlkur missa af tækifærum og ná aldrei að njóta hæfileika sinna að fullu vegna blæðingaskammar.

Erfitt að nálgast túrvörur

Víða eru túrvörur dýrar eða illfáanlegar. Skortur á blæðingaheilbrigði getur valdið líkamlegum kvillum. Samhengi getur verið á milli þess og sýkinga sem trufla frjósemi og virkni þvagfæra.

Í myndbandi á vegum Alþjóða mannfjöldastofnunarinnar (UNFPA) segir kona frá reynslu sinni af því að fá blæðingar á flótta frá Sýrlandi. „Það var ekki hlaupið að því að fá túrvörur,“ sagði hún. „Þegar við vorum á blæðingum á götum úti reyndum við að leyna þvi með aukalagi af fötum.“ 

„Við gátum ekki þrifið okkur. Ég fékk sýkingar og glími enn við þær,“ segir hún í myndbandinu.

Bindum enda á blæðingaskömm 

Flest tungumál búa yfir dulmáli yfir blæðingar: Fríða frænka kemur í heimsókn eða Rautt ástand, blóð-María, kvennamál eða bölvunin. Listinn er langur en alltaf er þetta endurspeglun á ótta við mismunun. Það er versti verkurinn sem fyglir blæðingum.

Blæðingaheilbrigði og velferð stúlkna eru lykilatriði í jafnrétti kynjanan. Að binda enda á blæðingaskömm er stórt skref í þá átt.

Sú skömm sem fylgir blæðingum getur haft neikvæð áhrif á geðheilsu. Hún veldur vanlíðan yfir fullkomlega eðlilegu líffræðilegu ferli. Engin ætti að fyllast ótta eða skömm yfir því að vera á blæðingum.

Mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) vinnur að því að túrvörur standi öllum sem þurfa á þeim að halda, til boða. Bindum enda á blæðingaskömm!