Að dansa sig til heilbrigðis

 Hvers kyns listsköpun getur stuðlað að bættri andlegri og líkamlegri heilsu. Þetta er helsta niðurstaða nýrrar úttektar Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar í Evrópu. Hún tók til 900 alþjóðlegra athugana og er viðamesta könnun á tengslum lista og heilbirgðis til þessa.

„Með því að færa listina inn í líf fólks í krafti alls kyns athafna á borð við dans, söng eða fara á listasöfn eða tónleika, bætum við nýjum litum í litróf  þeirra möguleika sem við höfum til að bæta líkamlega og andlega heilsu”, segir Piroska Östlin, svæðisstjóri WHO í Evrópu.

Tímamótaskýrsla

„Þau dæmi sem nefnd eru í tímamótaskýrslu WHO sýna að listir hafa hlutverki að gegna. Sem dæm má nefna takast á við flókna heilbrigðisvá á borð við sykursýki, offitu og geðræna sjúkdóma. Heilbrigði og vellíðan eru athuguð í víðu félagslegu og samfélagslegu samhengi. Boðið er upp á lausnir sem hefðbundin heilsugæsla hefur hingað til ekki getað boðið upp á með skilvirkum hætti“, segir Dr. Östlin.

Í skýrslunni er yfirlit um listræna starfsemi sem hefur að markmiði að bæta heilsu og koma í veg fyrir veikindi. Jafnramt hvernig hægt er að meðhöndla líkamlega eða andlega vanheilsu, auk líknarstarfsemi. Skýrslan var kynnt í dag í Heilsinki höfuðborg Finnlands.

Frá því barn er enn í móðurkviði og þangað til fólk er komið á líknardeildir geta listir haft jákvæð áhrif á heilbrigði. Börn sem lesið er fyrir á kvöldin sofa betur og einbeita sér betur í námi. Jafningjafræðsla á meðal ungmenna sem byggir á leiklist er talin skila góðum árangri við að stuðla að betri ákvarðanatöku, draga úr ofbeldi og stuðla að vellíðan. Síðar á æfinni getur tónlist glætt minningar þeirra sem þjást af minnistapi, sérstaklega hefur söngur skilað góðum árangri í að glæða athyglisgáfu, minni og fleira.

Listir í heilsugæslunni

Innan heilsugæslunnar hefur ástundun lista verið beitt til þess að efla annars konar læknismeðferð. Til dæmis:

• Að hlusta á tónlist eða skapa list getur dregið úr hliðarverkunum krabbameinsmeðferðar, til dæmis með því að auka matarlyst, draga úr syfju, öndunarerfiðleikum og ógleði.
• Listræn sköpun, hvort heldur sem er á sviði tónlistar, handavinnu eða trúðleiks, geta stuðlað að því að draga úr kvíða, sársauka og blóðþrýstingi, sérstaklega hjá börnum, en líka foreldrum.
• Dansi hefur verið beitt með góðum árangri til að bæta hreyfigetu fólks með Parkinson veiki.

Fyrir utan góðan árangur listrænnar meðferðar þá er hún oft ódýrari en hefðbundin úrræði. Listræn meðferð krefst oft bæði andlegrar og líkamlegrar áreynslu í senn og lítil hætta er á neikvæðum fylgifiskum. Þá hefur listræn virkni þann kost að auðvelt er að laga hana að mismunandi menningarheimum.

Sjá nánar hér.

Fréttir

Álit framkvæmdastjóra