Aðstoð kemst ekki til skila í Eþíópíu

0
609
Eþíópía Tigray
Barn bíður læknisrannsóknar i Wajirat í suðurhluta Tigray. ©UNICEF/Christine Nesbitt

Sameinuðu þjóðirnar hafa þungar áhyggjur af ástandinu í Tigray-héraði í Eþíópíu. Mjög er farið að ganga á hjálpargögn, fé og eldsneyti til handa þurfandi fólki. Ástæðan er sú að aðeins tíundi hver flutningabíll með hjálpargögn hefur komist á áfngastað frá því um miðjan júlí, að sögn samræmingarskrifstofu mannúðaraðstoðar hjá Sameinuðu þjóðunum (OCHA).

Átök eru á milli stjórnarhers Eþíópíu og uppreisnarmanna. Talið er að 1.7 milljón manna búi við fæðuóöryggi af þessum sökum. Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt stríðandi fylkingar til að leyfa varanlegan og öruggan aðgang þannig að aðstoð berist nauðstöddum.

Semara-Abala hliðið, eini vegurinn til Tigray um Afar-hérað, hefur verið algjörlega lokaður frá því 22.ágúst.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur varað við því að „hamfarir séu í uppsiglingu“ en tvær milljónir manna hafa lent á vergangi í Tigray og 300 þúsund að auki í Afar og Amhara.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur varað við því að 400 þúsund manns búi við aðstæður sem megi líkaj við hungursneyð og 100 þúsund muni líða fyrir alvarlega vannnæringu innan árs.

Grant Leaity sem samræmir hjálparstarf í Tigray segir að deilendum beri að fara eftir alþjóðlegum mannúðarlögum. „Þeim ber að virða og vernda alla hjálparstarfsmenn og gögn þeirra. Sérstaklega verður ríkisstjórn Eþíópíu að leyfa óhindraðan aðgang að landinu og ferðir hjálparstarfsmanna og flutning aðstoðar í hverju formi sem er, innan þess.“