Að skipta máli í heimi á hverfanda hveli

0
429
Trygve

Trygve

Maí 2015. Trygve Olfarnes, hefur starfað í mörgum heimshornum á vegum Sameinuðu þjóðanna. Nú er hann kominn aftur heim til Noregs þar sem hann gegnir stöðu varaforstjóra Norðurlandaskrifstofu UNDP með aðsetri í Osló. Hann er Norðurlandabúi mánaðarins á vettvangi SÞ.

 

Hvenær hófstu störf fyrir SÞ?

Ég fór að vinna hjá Sameinuðu þjóðunum vegna þess að ég hafði bæði mikinn áhuga á alþjóðlegu þróunarstarfi og blaðamennsku. Ég hef unnið bæði hjá UNDP og UNFPA á sviði samskipta og fjölmiðlatengsla í höfuðstöðvum beggja samtaka í New York og hér og þar í heiminum. Þetta hefur gert mér kleift að sameina þessi tvö áhugamál, auk þess sem ég hef vonandi lagt mitt litla lóð á vogarskálar alþjóðlegrar þróunar.

Hvað er stærsta áskorunin í starfi hingað til?

Erfiðasta glíman í mínu starfi hefur verið að takast á við eftirleik hamfara og horfast í augu við eyðileggingu og mannfall. Ég hef upplifað slíkt í Aceh í Indónesíu eftir Flóðbylgjuna 2004, í Port-au-Prince í Haítí eftir jarðskjálftann 2010 og í Monrovia í Líberíu í Ebólafaraldrinum. Þetta hefur haft mikil áhrif á mig vegna þess hversu margir áttu um sárt að binda og mannleg þjáning var átakanleg. En þetta hafði líka áhrif á jákvæðan hátt því maður sá hversu miklar fórnir fólk var tilbúið að færa til þess að hjálpa náunganum. En svo má líka segja að það sé áskorun sem mætir mér á hverjum degi á Norðurlandaskrifstofu UNDP sem felur í sér að koma á framfæri þróunarstarfi Sameinuðu þjóðanna og UNDP, Þróunarstofnunar samtakanna, þegar keppnin um athygli fólks er jafn mikil og raun ber vitni.

Hvert er stærsta verkefni UNDP?

Að skipta áfram máli og vera á tánum í heimi á hverfanda hveli sem er sífelldum breytingum undirorpinn og þar sem þróun á undir högg að sækja vegna vopnaðra átaka og náttúruhamfara. En ég er bjartsýnn bæði á getu SÞ og UNDP til að glíma við nýjar áskoranir, sérstaklega vegna stuðnings samstarfsaðila okkar við nýju þróunaráætlanirnar, Sjálfbæru þróunarmarkmiðin sem munu taka við af Þúsaldarmarkmiðunum um þróun í lok ársins.

Heldurðu að Norðurlandabúar hafi eitthvað sérstakt fram að færa á vettvangi SÞ?

Ég held að fjöbreytni sé styrkur Sameinuðu þjóðanna og Norðurlandabúar eru hluti af því og leggja fram sinn skerf til fjölbreytileikans. Norðurlöndin, sem voru fyrir aðeins einni öld að mestu leyti fátæk bændasamfélög, hafa oft og tíðum innrætt þegnum sínum samheldni og lýðræðisleg gildi sem ég held að geti verið jákvætt framlag til starfs Sameinuðu þjóðanna.