Að tjaldabaki hjá Loftslagsnefndinni

0
469

 IPCC newsletter

Skýrsla Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) er ekkert einfalt verk. Að henni komu 259 höfundar og 39 ríki og gerðar voru 54,677 athugasemdir.

 Skýrslunnar hafði verið beðið með mikill eftirvæntingu þegar hún kom út 27. september enda hafði síðasta skýrsla vakið mikla athygli og fært IPCC friðarverðlaun Nóbels í félagi við Al Gore. Fjölmiðlar voru stútfullir af fréttum um þær niðurstöður að hitastig jarðar færi enn hækkandi, sem og yfirborð sjávar og nú mætti slá því föstu að líkurnar væru 95% á að allt væri þetta af mannavöldum.

En Fréttabréf UNRIC ætlar ekki að tíunda efni skýrslunnar – það hafa aðrir gert- heldur skyggnast bakvið tjöldin, en þar léku ýmsir Norðurlandabúar bæði stór og smá hlutverk.

Hvernig er hægt að koma slíku verki heim og saman?

”Það er ekki einfalt að segja frá hvernig svona skýrslu verður til, enda ekki einfalt ferli,” segir Jens Hesselbjerg Christensen. Hann er einn af helstu loftslagsvísindamönnum Dana og stýrir Centre for Regional Change in the Earth System á dönsku Veðurstofunni. Hann er einn af helstu skýrsluhöfundum.

IPCC skýrslunni er skipt niður í marga kafla og höfundar valdir á faglegum forsendum. Niðurstöðurnar eru síðan lagðar fyrir öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna sem fara yfir þær. Jens Hesselbjerg Christensen segir frá því að á síðasta fundi hafi um 100 aðildarríki sent fulltrúa sína. Sum ríkjanna vilja bara fylgjast með en önnur taka virkan þátt í starfinu.

Skýrslan sjálf sem hefur verið svo mjög til umfjöllunar í fjölmiðlum, heitir ”Summary for Policy Makers” og má finna á heimasíðu IPCC. Hún stendur undir því nafni að vera samantekt fyrir þá sem þurfa að taka ákvarðanir, þeas. henni er ætlað að vera vísindaleg skýrsla á máli sem venjulegt fólk skilur. Jens Hesselbjerg Christensen nefnir raunhæft dæmi. ”Ef ég segi: ”Það dregur úr monsún hringrásinni”, þá spyrja flestir á móti: ”Hvað þýðir það?”Þess vegna er betra að setja þetta fram á eftirfarandi hátt: ”Það hægir á monsún-vindunum” – það skilst betur. Um þetta snýst málið: að finna rétt orð, þannig að skýrslan skiljist auðveldlega. Við drögum úr fræðatali og skiljum það eftir sem skiptir máli.”

Markmiðið er að semja skýrslu sem er auðskiljanleg og getur legið til grundvallar í samningaviðræðum í loftslagsmálum en er á sama tíma trú vísindalegum aðferðum.

Vinnuferli IPCC hefur engu að síður verið gagnrýnt fyrir að hleypa pólitískum viðhorfum um of, að ferlinu. Jens Hesselbjerg Christensen staðfestir að sumt í ferlinu sé pólitískara en annað, en leggur áherslu á: ”Skýrslan er samantekt í þágu ákvarðanatöku og ég legg áherslu á orðin í þágu, því skýrslan er ekki það sem stjórnmálamenn vilja heyra, heldur það sem þeir þurfa að heyra.”

Það er ekki síst þegar rætt er um ”skuldbindingar” sem pólítíkusarnir vilja láta til sín taka. Þar er fjallað um það sem hefur verið gert og það sem ber að gera til þess að hitastig jarðar hækki ekki um meir en tvær gráður. Þarna telja sum ríki sig hafa hagsmuni af því að útvatna skýrsluna svo efni hennar verði ekki of íþyngjandi í viðræðum um loftslagsmál.

Jens Hesselbjerg Christensen segir að vissulega geti textinn orðið frekar klunnalegur þegar tekið hefur verið tillit til allra sjónarmiða. ”En það verða alltaf að vera fagleg sjónarmið að baki, ef sleppa á einhverju tilteknu atriði,” segir hann.

Vissulega berjast sum ríki líka fyrir ”grænum” sjónarmiðum og draga þann taum við samningu skýrslunnar. Mörg Evrópusambandsríkjanna eru þessarar skoðunar.

Sumum hafa fundist loftslagsskýrslurnar minna á dómsdagsspár. Jens Hesselbjerg segir að það sé ekkert meira um slíkt en efni standi til. Ef höfundarnir geti ekki fært rök fyrir máli sínu opinberlega, sé ekki tekið tillit til sjónarmiða þeirra opinberlega. Þetta verður líka til þess að skýrslan sé kannski íhaldsamari en gengur og gerist í loftslagsrannsóknum.

Það er óhjákvæmilegt að spyrja Jens Hesselbjerg Christensen hvers vegna vísindamenn tali um hlýnun jarðar, þegar slíkt er ekki í samræmi við reynslu venjuleg fólks. ” Hann bendir á að ekki sé hægt að bera saman einstök ár, ekki einu sinni einstaka áratugi. Líta verði til mun lengri tíma. ”Að því sögðu má ekki gleyma því að það skiptir máli hvar mann ber niður í loftslaginu því sums staðar hefur orðið mikil hlýnun á allra síðustu árum, þar á meðal í hafinu,” bendir hann á og heldur svo áfram: ”Þetta þýðir að orkan hefur fundið sér nýjan farveg. Mest hefur alltaf endað í hafinu en nú hefur það enn aukist. Og þetta er einfaldlega skýringin á því sem hefur gerst á síðustu árum, og það er ekki í neinni mótsögn við að almennt séð hefur hlýnunin haldið áfram.”

Skýrslan sem kom út í lok september er fyrsti hluti af hrinu skýrslukafla frá Loftslagsnefndinni. Hún á að vera komin út í heild að ári á fundi nefndarinnar í Kaupmannahöfn í október 2014.

http://www.climatechange2013.org/images/uploads/WGIAR5-SPM_Approved27Sep2013.pdf

Mynd: NASA Goddard Photo and Video