Hlutur ungs fólks í stjórmálum á Norðurlöndum er tiltölulega góður, miðað við veröldina í heild. Þróunin á flestum Norðurlandanna er í þá átta að meðalaldur hafi farið lækkandi á þjóðþingum, þótt þetta gildi síður um Ísland og Danmörk en nágrannalöndin. 12.ágúst er Alþjóðlegur dagur æskunnar.
Meðalaldurinn á norska þinginu er lægstur eða 45 ár, í Finnlandi er hann 46 ár, 47.7 í Svíþjóð en rétt rúmlega 49 ár á Íslandi. Meðalaldurinn hækkaði um tvö ár í síðustu kosningum til Alþingis. Á heildina litið er hlutur ungs fólks þokkalegur á Norðurlöndum.
Norðurlönd þokast í rétta átt.
Ekki verður það sama sagt um allan heiminn. Helmingur jarðarbúa er nú undir þrítugu og búist er við að 2030 verði hlutfallið 57%. Hins vegar eru aðeins 2.6% þingmanna heimsins undir 30 ára aldri.
Á hinn bóginn er þróunin á leið í rétta átt, að minnsta kosti á Norðurlöndum. Sanna Marin varð þannig forsætisráðherra Finnlands aðeins þrjátíu og fjögurra ára að aldri. Hún varð yngsti forsætisráðherra heims en Sebastian Kurz skaut henni ref fyrir rass þegar hann tók við stjórnartaumum í Austurríki 2020. Frami Sanna Marin er ekkert einsdæmi í Finnlandi því þegar hún settist í stjórn voru þrír af fjórum foringjum flokkanna í samsteypustjórn undir 35 ára aldri og allt konur.
Í Noregi er nokkuð algengt að fela ungu fólki ráðherraembætti. Emilie Enger Mehl varð yngsti dómsmálaráðherra landsins þegar hún var skipuð í embætti í október 2021, aðeins 28 ára að aldri. Áslaug Anna Sigurbjörnsdóttir var svo rétt tæplega 29 ára þegar hún varð dómsmálaráðherra 2019.
Yngsti fulltrúinn sem nú situr á danska þinginu Aki-Matilda Høegh-Dam frá Grænlandi var 22 ára þegar hún náði kjöri. Yngsti finnski þingmaðurinn er Iiris Suomela, 24 ára en yngsta íslenska starfsystir hennar, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir var ári eldri þegar hún tók sæti á þingi 2021, jafngömul Åse Kristin Ask Bakke Stórþingskonu í Noregi.
Svíi yngsti þingmaður sögunnar
Ef litið er til sögunnar eiga Svíar hins vegar yngsta þingmann sem dæmi er um, en Anton Abele var átján ára þegar hann varð þingmaður 2010. Karina Sørensen var ári eldri þegar hún settist á þing í Danmörku 2001 eða nítján, en íslenski methafinn Jóhanna María Sigmundsdóttir var kosin á Alþingi 2013, tuttugu og eins árs gömul. Loks er yngsti þingmaður sem dæmi er um á norska Stórþinginu Mette Hanekamhaug en hún var tuttugu og tveggja ára er hún settist á þing 2009.
Hvatt til þátttöku ungs fólks
Sameinuðu þjóðirnar hvetja til þátttöku allra þjóðfélagshópa og hafa lýst áhyggjum sínum af því að svo stór hópur hafi jafn lítil áhrif og raun bera vitni í alþjóðastjórnmálum. Aðalframkvæmdastjóri samtakanna hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að ungt fólki taki þátt í ákvörðunum, sérstaklega í loftslagsmálum. Ástæðan er einfaldlega sú að æskan sýpur seyðið síðar á ævinni af ákvörðunum sem teknar eru í dag.
Árið 1985 var ár æskunnar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og frá því 199 hefur Alþjóðlegi æskulýðsdagurinn verið haldinn.