Afganistan: ástæða til að óttast dauðsföll og landflótta

0
854
Afganistan
Barn fær vítamínsprautu vegna vannæringar í Afganistan.

Sífellt fleiri dæmi eru um að börn í Afganistan séu seld í ánauð, þvinguð í hjónaband eða sæti þrælkun. Efnahagur landsins er að hruni kominn eftir valdatöku Talibana. Þetta kom fram í ávarpi Nada Al-Nashif vara-mannréttindastjóra Sameinuðu þjóðanna á fundi Mannréttindaráðsins í gær.

„Aðildarríkin standa nú frammi fyrir erfiðum ákvörðum til að koma í veg fyrir algjört efnahagslegt hrun. Valið stendur beinlínis á milli lífs og dauða. Svarið mun marka framtíð Afganistan,“ sagði Al-Nashif.

Sameinuðu þjóðirnar og fleiri hjálparsamtök hafa sent ákall til þjóða heims um að koma Afganistan til hjálpar.  Samdráttur efnahagslífsins eftir valdatöku Talibana er fordæmalaus. Þanig er búist við að þjóðarframleiðsla minnki um 30% á ári.

Í frjálsu falli 

„Afganistan er í frjálsu falli,“ skrifa Martin Griffiths mannúðarmálastjóri Sameinuðu þjóðanna og Peter Maurer forseti Alþjóðaráðs Rauða Krossins.

„Hjálparstarfsmenn etja kappi við tímann við að hjálpa fólki að þreyja þungan veturinn. Starf þeirra er þýðingarmikið en það nær skammt.“

Afganistan hefur um langt árabil þurft að reiða sig á utanaðkomandi hjálp. Hún hefur hins vegar þorrið eftir því sem afstaða erlendra til Talibana sem hafa tögl og hagldir í Kabúl. Laun helstu opinberra starfsmanna á borð við lækna, hjúkrunarfræðinga og kennara hafa ekki verið greidd svo mánuðum skiptir.

Heilbrigðisþjónustan hefur ekki fé til að greiða fyrir hita, rafmagn eða sjúkrabifreiðar. Grunnþjónusta er að hruni komin og fórnarlömbin eru fólkið sem þarf á þjónustunni að halda.

„Án mun meiri alþjóðlegrar hjálpar við að viðhalda félagslegri þjónustu ríkisins, verður ekki hægt að forðast dauðsföll í Afgnistan í vetur,“ skrifa Griffiths og Maurer. „Ef ekki verður að gert mun Afganir neyðast til að flýja land sitt.“

Sameinuðu þjóðirnar og hjálparsamtök hafa biðlað til ríkja og íbúa heims að fjármagna hjálparstarf sem talið er að muni kosta Nærri fjóran og hálfan milljarð Bandaríkjadala í landinu. Þetta er hæsta upphæð sem farið hefur verið fram á fyrir eitt einstakt ríki. 24 milljónir manna þurfa á lífsnauðsynlegri aðstoð að halda um allt landið.

„Nú þegar hafa Afganir þurft að glíma við mestu þurrka í tuttugu ár og tveir-þriðju hlutar landsmanna munu þurfa á matvælaaðstoð að halda á næsta ári. Börn munu þola alvarlega vannæringu. Fyrst munu börnin deyja vegna læknanlegra sjúkdóma en síðan hreinlega úr hungri. Vanfærar konur munu deyja við að fæða börn því enga heilsugæslu er að fá. Fólk mun þurfa að horfast í augu við frostavetur án aðgangs að rafmagni eða rennandi vatni.“

Starf SÞ heldur áfram

Sameinuðu þjóðirnar sitja sem fastast í landinu, þótt herir og starfslið herja og hernaðarbandalaga sé horfið á brott.  Flestir starfsmanna Sameinuðu þjóðanna eru heimamenn.  

„Það er ekki um annað að ræða en að koma á viðræðum við þá sem í raun ríkja í Aganistan. Til greina kemur að aflétta eða slá á frest ákveðnum efnahagslegum þvingunaraðgerðum eða að hefja í ný í áföngum langtíma þróunaraðstoð með skilyrðum um framfarir á sviðum sem mikilvæg eru talin á alþjóðavettvangi svo sem réttindi kvenna og stúlkna,“ segir í grein Griffiths og Maurer.