Milljarður dala safnaðist fyrir Afganistan

0
672
Afganistan
Mynd: UNICEF. Sjö ára stúlka í Kandhar heldur á systkini.

Árangur áheitaráðstefnu fyrir Afganistan fór fram úr björtustu vonum. Nærri tvöfalt meira fé safnaðist á ráðstefnunni, sem haldin var í Genf í gær, en vonast var til. „Þetta er risastökk,“ sagði António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.

Martin Griffiths stjórnandi hjálparstarfs Sameinuðu þjóðanna sagði að fyrirheit hefðu verið gefin um 1.2 milljarða dala framlög. Er þá bæði átt við mannúðaraðstoð og framlög til þróunarmála. Þetta er jafnvirði um 156 milljarða íslenskra króna.

„Með þessu er kastað líflínu til Afgana sem hafa ekki að neinni þjónustu að hverfa. Til lítilla barna sem eiga á hættu að vera alvarlega vannærð. Einnig til kvenna og stúlkna sem gætu misst aðgang að heilsugæslu á sviði frjósemi, svo eitthvað sé nefnt sagði Griffiths, forstjóri OCHA, samræmingarskrifstofu mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna.

25 milljónir frá Íslandi

Afganistan
Guðlaugur Þór Þórðarson ávarpaði ráðstefnuna um fjarfundarbúnað. Mynd: Utanríkisráðuneytið.

 Noregur hét því að láta 100 milljónir norskra króna (1.5 milljarðar íslenskra króna) af hendi rakna. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tilkynnti um 25 milljóna króna framlag Íslands á ráðstefnunni í gær. Fjárhæðin kemur til viðbótar við 30 milljóna króna framlags til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og 30 milljóna króna framlags til Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) sem tilkynnt var um í ágúst.

„Með þessu viljum við svara ákalli Sameinuðu þjóðanna um tafarlausan stuðning við afgönsku þjóðina,“ sagði Guðlaugur Þór í ávarpi sínu.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ítrekaði nauðsyn þess að aðstoð við Afganistan væri ekki á kostnað réttindi kvenna og minnihlutahópa í Afganistan, sem náðst hefðu með þrautseigju á síðustu 20 árum.

Það fé sem safnaðist er til fjögurra mánaða og Guterres varaði við því að slík aðstoð kæmi fyrir lítið „ef hagkerfi Afganistans hrynur. Við vitum að mikil hætta er á slíku og fjárskortur er mikill.“