Allsherjarþingið: Geir og Ingibjörg í beinni

0
458

Almennar umræður á sextugasta og þriðja Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hófust í dag með skýrslu framkvæmdastjórans Ban Ki-moon en samkvæmt hefð ávörpuðu síðan forsetar Brasilíu og Bandaríkjanna þingið fyrstir.
Almennu umræðunum með þátttöku æðstu manna lýkur 1. október.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra ávarpar Allsherjarþingið föstudaginn 26. september og er áætlað að ræðan hefjist klukkan 21. 15 að íslenskum tíma. Hægt er að horfa á ræðuna í beinni útsendingu á netinu: http://www.un.org/webcast/

Talið er að fimmtánhundruð tvíhliða fundir aðildarríkja séu haldnir á vettvangi Allsherjarþingsins. Hér sjást Condoleeza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna að loknum fundi þeirra.

 Athygli skal vakin á því að blaðamannafundi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, utanríkisráðherra og Hannesar W. Heimssonar, fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðanna er sjónvarpað beint á sömu vefslóð hann klukkan 6 síðdegis í dag 23. september að íslenskum tíma.

Í almennu umræðunum á Allsherjarþinginu gefst öllum aðildarríkjum kostur á að ræða brýn málefni og eru hverjum ræðumanni úthlutaðar fimmtán mínútur. 
Að þessu sinni hefur Miguel d’Escoto Brockmann, forseti 63. Allsherjarþingsins kosið þemun: “Áhrif matvælakreppunnar á fátækt og hungur í heiminum og nauðsyn þess að lýðræðisvæða Sameinuðu þjóðirnar.”

150 mál rædd

Öll hundrað og níutíu og tvö aðildarríki Sameinuðu þjóðanna taka þátt í almennu umræðunni. Umræðum er sjónvarpað beint á vefnum htttp://www.un.org/webcast/ en einnig mörgum blaðamannafundum. Listi ræðumanna er birtur á http://www.un.org/ga/63/generaldebate/ en athygli skal vakin á því að röðin getur riðlast og búast má við töfum. 
Almennu umræðunum lýkur 1. október en engar umræður eru þó 30. september sem er frídagur hjá Sameinuðu þjóðanna vegna  Eid al-Fitr trúarhátíðar múslima. Fimmtudaginn 25. september efnir framkvæmdastjórinn svo til sérstakra umræðna um Þúsaldarmarkmiðin um þróun með þátttöku háttsettra leiðtoga.
150 málefni verða á dagskrá Allsherjarþingsins að þessu sinnni en þingið stendur til 14. september á næsta ári. 

Sífellt fleiri leiðtogar sækja Allsherjarþingið 

Athyglisvert er að skoða listann yfir ræðumenn. Fyrr á árum var Allsherjarþingið fyrst og fremst vettvangur utanríkisráðherra en segja má að það hafi breyst frá Þúsaldarfundinum í september 2000. Að þessu sinni munu um 130 oddvitar ríkja eða ríkisstjórna ávarpa þingið en aðeins 43 gerðu það árið 1998.

Til gamans má geta að hefð er fyrir því að Brasilía ávarpi fyrst allra ríkja Allsherjarþingið. Sagan segir að á fyrsta þinginu hafi fulltrúi heimamanna Bandaríkjamanna sem hafi átt að ríða á vaðið, færst undan því. Enginn hafi viljað vera fyrstu og það hafi ekki verið fyrr en forseti þingsins leitaði til Brasilíu sem hafði árangur sem erfiði. Brasilíumenn gerðu það hins vegar að skilyrði að þeir myndu framvegis ávarpa fyrstir Allsherjarþingið og hefur sú hefð haldist.