Alþjóðlegur dagur Downs-heilkennis

0
205

Eitt barn af hverjum sjö hundruð sem fæðast í heiminum er með Downs-heilkenni. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt að 21.mars ár hvert skuli vera Alþjóðlegur dagur Downs-heilkennis. Tilgangurinn er að vekja almenning til vitundar um fólk sem fæðist með þetta heilkenni, þarfir þeirra, óskir, drauma og vanda sem það þarf að glíma við.

Það er kennt við enska lækninn John Langdon Down sem skrifaði tímamótagrein árið 1866. Um er að ræða þrjár gerðir af Downs-heilkenni en nærri 95% allra með Down-heilkenni eru með þrístæðu 21.

Þroskahefting er óhjákvæmilegur fylgifiskur heilkennisins en greind er þó mismunandi. Á móti kemur að fólk með Down-heilkenni er oft og tíðum blítt og hamingjusamt þótt vitaskuld séu einstaklingarnir ólíkir.

Oft er andlitsfall þeirra sem fæðast með Downs-heilkenni nokkuð flatt, augnaumgjörð uppvísandi, húðfelling í innri augnkróki, nef lítið og tunga stór, að því er segir í grein eftir Hans Tómas Björnsson á Vísindavef Háskóla Íslands.

Enginn veit með vissu hvers vegna börn fæðast með Downs. Heilkennið er ekki sjúkdómur eða galli, en stundum fylgja heilkenninu heilbrigðisvandamál eða erfiðleikar. Lífslíkur fólks með Down-heilkenni eru sagðar ágætar, að því tilskyldu að það glími ekki við alvarlega hjartagalla.

Um það bil eitt af hverjum 800 börnum á Íslandi fæðist með Down-heilkenni.

Sjá nánar um Downs heilkenni og fólk á Íslandi með heilkennið hér.  

Sjá fyrri umfjöllun  hér