Ályktun 1325: Lykill að varanlegum friði

0
661
Alþjóðlegur dagur friðargæsluliða SÞ
Konur í UNIFIL friðargæslusveitinni í Líbanon. UN Photo

Karlar hafa ráðið friðargæslu um langt skeið og starf hennar hefur verið miðað við karlmenn. Konur hafa haft lítið að segja um öryggismál frá öndverðu og sama máli gegnir um friðargæslu.

29.maí er haldinn Alþjóðlegur dagur friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna og þema dagsins í ár er “Konur í friðargæslu – lykill að friði.”

31.otkóber 2000 samþykkti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samhljóða ályktun 1325 um kynferði, frið og öryggi með það að leiðarljósi að auka áhrif kvenna í þessum málaflokkum.

Ályktunin leggur áherslu á mikilvægi kvenna í að hindra að átök brjótist út, í friðarviðræðum- og uppbyggingu og í friðargæslu og mannúðarstarfi.

Einnig er lögð áhersla á hve þýðingarmikil aðkoma kvenna á jafnréttisgrundvelli er í stuðningi við og þróun friðar og öryggis.

20 ára afmæli

Á alþjóðlegum degi friðargæslu Sameinuðu þjóðanna er kastljósinu beint að kvenkyns friðargæsluliðum og minnt á mikilvægi ályktunar 1325 og þeim breytingum sem hún hefur haft í för með sér undanfarin 20 ár.

En á hinn bóginn leynist engum að þrándur er í götu þegar litið er til þátttöku kvenna á öllum þessum sviðum. Þátttaka kvenna í friðargæslu er mikilvæg forsenda varanlegs friðar og eykur árangur friðargæslunnar sem slíkrar.

Tölfræðin sýnir okkur að þátttaka kvenna í friðarviðræðum og í friðargæslu skilar góðum árangri. Úttekt á 42 vopnuðum átökum frá 1989 til 2011 sýnir að friðarsamningar þar sem konur hafa verið á meðal þeirra sem undirrituðu, eru líklegri til að leiða til varanlega friðar.

Sama máli gegnir þegar litið er til þess hvort gert er ráð fyrir pólitískum umbótum og hvort þeim hafi verið hrint í framkvæmd.

„Um leið og við minnumst tvítugsafmælis ályktunar Öryggisráðsins 1325 um konur, frið og öryggi ber okkur að gera meira til þess að tryggja jafnan hlut kvenna á öllum sviðum þegar friður og öryggi er annars vegar,” segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í myndbands-ávarpi í tilefni af alþjóða degi friðargæsluliða.

Konur eru enn sniðgengnar

Á síðustu tveimur áratugum hefur hlutur kvenna í friðargæslu aukist, þökk sé ályktun 1325. Frá 2015 hefur aukning kvenna verið áberandi. Í friðargæsluverkefnum Sameinuðu þjóðanna er hlutur þeirra í heild nú 12.8% þegar allt er talið, en það er engu að síður of lítið.

Á alþjóðlegum degi friðargæsluliða er ástæða til að fagna þeim árangri sem náðst hefur en á sama tíma ber okkur að viðurkenna þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir til þess að konur verði fullir og jafnréttháir þátttakendur á öllum sviðum enda er það lykill að varanlegum friði.

Sjá nánar hér og hér.

Um Alþjóðlegan dag friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna sjá hér. 

Um kostnað við friðargæslu sjá hér.